Verslunarmannahelgin er að ganga í garð. Stór hluti þjóðarinnar hefur, eins og ég, legið yfir vedur.is og refreshað í von um að spáin verði betri í hvert sinn. Þessi helgi hefur sérstakan stað í huga okkar, því mörgum Íslendingum finnst sem þessi fyrsti mánudagur í ágúst sé nánast síðasti dagur sumars. Þetta sé því síðasti séns á útilegu. Síðasti séns á sumri.

Við vitum að ágústkvöldum fylgja meira rökkur en á sumarkvöldum. Í ágúst er sumarfríið búið hjá langstærstum hluta þjóðarinnar sem mætir aftur í rútínuna eftir helgi. Svo fara skólarnir bráðum að byrja. Og í huga okkar vegur þetta þyngra en sú staðreynd að meðalhiti ágústmánaðar er oft svipaður og í júlí og iðulega hærri en í júní. Því það sem okkur finnst vegur hér þyngra en tölulegar staðreyndir vísindamanna.

Undanfarinn áratug hefur borið á litlum hópi Íslendinga sem reyna að koma ágúst í flokk sumarmánaða. Hugsanlega er þetta bjartsýnisfólk. Jafnvel fólk sem dvalið hefur í Evrópu, vanist tilhugsuninni um að ágúst sé heitur sumarmánuður og kippir sér ekki upp við sólsetur að sumri. Fólk sem er ekki tilbúið að sleppa tökunum á sumrinu og vill að það endist fram í miðjan september. Eða bara fólk sem finnst að allar árstíðir eigi að fá þrjá mánuði, því meira að segja náttúran eigi skilið eitthvert jafnræði.

Fyrir einhverjum árum ákvað ég að ganga í hóp þessa bjartsýnisfólks og lýsa ágúst sem sumarmánuð. Það er alveg nóg af öðrum tækifærum til að sleppa takinu á einhverju skemmtilegu. Höldum í sumarið eins lengi og við getum og komum heil heim eftir þessa sumarhelgi.