Um daginn heyrði ég nokkuð unga konu nota orðasambandið „ég er að miðaldra yfir mig“ í samhengi við að spila golf. Í framhaldinu kom ég auga á ýmsar dramatískar setningar tengdar miðjum aldri. Karl sem var ekki nógu töff á Twitter var sagður hafa miðaldrað upp á bak. Konu með áberandi flottan starfsferil var lýst sem miðaldra slæðukerlingu, og framkvæmdastjórn fyrirtækis sögð vera eitthvað svo miðaldra.

Hvenær verður fólk miðaldra og hvenær verður fólk ekki miðaldra? Doktor Google telur að fólk sé orðið miðaldra eftir 35 ára aldur og að ástandið vari til sextugs. Ef viðkomandi eru svo lánsöm að lifa þetta lengi. Þetta er mögulega skellur fyrir unga fólkið sem taldi sig nokkuð langt frá þessum hörmulegu örlögum. Kannski enn frekar í þeim tilvikum þegar viðkomandi skilgreina virði sitt út frá því að vera ekki miðaldra. Það getur leitt til alvarlegrar sjálfsmyndarkrísu meints ungs fólks, sem ég er viss um að samfélagið þarf að bregðast við með stuðningshópum og kertafleytingu, jafnvel mínútu þögn.

Þeim til huggunar bendir önnur rannsókn til þess að fólk verði miðaldra um 45 ára aldur. Þið hafið tíu ár, krakkar mínir. Kenningin um að aldur sé hugarástand fær þarna byr undir báða vængi. Fyrir þau ykkar sem vissuð það ekki þá eru hæð og þyngd líka hugarástand.

Sem betur fer þarf ég ekki að hafa áhyggjur af þessari framtíðarsýn. Enda fæddist ég að sögn dóttur minnar áttræð, borðandi kjötsúpu og hlustandi á Rás 1 í sveitinni, löngu búin að vinna þessa keppni.