Víða um heim er kynferðisofbeldi sá glæpur sem sjaldnast er kærður til lögreglu og er Ísland þar engin undantekning. Umræða um málsmeðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins hefur verið áberandi í ár. Sérstaklega í kringum samfélagsmiðlabyltinguna undir myllumerkinu #WhyIDidntReport sem snýr að ástæðum þolenda kynferðisofbeldis að tilkynna eða kæra ekki brotið. Atriði sem þar komu fram eru í takt við niðurstöður rannsókna sem sýna að helstu ástæður þess að kæra ekki kynferðisbrot eru lítil trú á kerfið, telja að sér verði ekki trúað, skömm og til að vernda sig frá frekari vanlíðan. Kallað hefur verið eftir breytingum í réttarvörslukerfinu. Ljóst er að ef einstaklingar eiga að sjá tilgang í því að leggja fram kæru um kynferðisbrot verður kerfið að vera þolendavænna.

Umbótaverkefni í þágu þolenda kynferðisbrota á Norðurlandi

Svar við því kalli er til að mynda umbótaverkefni í þágu þolenda kynferðisbrota á Norðurlandi. Um er að ræða samstarfsverkefni á vegum Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, Sjúkrahússins á Akureyri, Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, Héraðssaksóknara og Rannsóknamiðstöðvar gegn ofbeldi við Háskólann á Akureyri. Umbótaverkefnið fór af stað í byrjun árs 2018 og er það tvíþætt.

Í fyrsta lagi felur það í sér að veita þolendum kynferðisbrota, þeim að kostnaðarlausu, sálfræðiaðstoð eftir skýrslutöku hjá lögreglu. Um er að ræða stuðningsviðtal hjá sálfræðingi þar sem brotaþola gefst tækifæri til að ræða upplifun af ofbeldinu og skýrslutökunni. Í viðtalinu skal lögð áhersla á faglegt mat á áhættuþáttum sem gætu valdið því að skjólstæðingur þurfi frekari aðstoð ásamt því að veita fræðslu um viðbrögð við áfalli. Markmiðið er að reyna að koma í veg fyrir að eðlileg áfallastreituviðbrögð þróist yfir í sjúkdómseinkenni. Auk þess að benda á viðeigandi meðferðarúrræði og leiðir ef þörf er á frekari stuðningi.

Í öðru lagi felur verkefnið í sér að tilkynna brotaþolum niðurfellingu héraðssaksóknara í kynferðisbrotamálum í viðtali á lögreglustöð í stað þess að niðurfellingarbréf berist í pósti eins og áður hefur tíðkast. Það fyrirkomulag hefur verið gagnrýnt og þá helst fyrir að vera ónærgætin leið til að tjá einstaklingum erfiðar fréttir. Í viðtalinu er brotaþola tjáð að málið hafi verið látið niður falla og eru þar viðstaddir með honum réttargæslumaður og lögfræðingur á vegum lögreglunnar. Þar fær brotaþoli jafnframt afhent niðurfellingarbréfið frá héraðssaksóknara. Farið er í gegnum bréfið með brotaþola og ákvörðun héraðssaksóknara útskýrð fyrir honum. Auk þess að kynna næstu skref sem snúa aðallega að því hvort viðkomandi vilji kæra ákvörðunina til ríkissaksóknara. Markmið þessa hluta verkefnisins er að bæta upplýsingagjöf og samskipti við þolendur kynferðisbrota.

Aðkoma Rannsóknamiðstöðvar gegn ofbeldi við HA

Nú sem fyrr er mikilvægt að efla tengsl vísinda og samfélags. Það er mér sönn ánægja að segja frá því að aðkoma Rannsóknamiðstöðvar gegn ofbeldi er að framkvæma rannsóknir sem skoða reynslu þolenda kynferðisbrota af þeim nýju verkferlum innan réttarvörslukerfisins sem umbótaverkefnið snýr að. Niðurstöður þeirra rannsókna verða nýttar til þess að meta árangur verkefnisins og er von á fyrstu niðurstöðum í lok þessa árs. Það verður spennandi að fylgjast með þessu aukna samstarfi mismunandi stofnana samfélagsins sem er forsenda þess að stuðlað sé að heildrænni nálgun í kynferðisbrotamálum.

Karen Birna Þorvaldsdóttir

Formaður rannsóknamiðstöðvar gegn ofbeldi við HA