Tvær unglingsstúlkur ætluðu að gera sér dagamun um helgina. Þær hafa ef laust haft svipað í hyggju og vinir og vinkonur minnar kynslóðar; að hanga saman í sófa, tala um lífið og tilveruna, horfa á bíómynd eða sjónvarpsþátt. Líklega hefði verið rætt um möguleg rómantísk viðföng, vináttuna og framtíðina. Það var örugglega hlátur í uppsiglingu; kannski á kostnað einhvers sem ekki var á staðnum—en samt örugglega ekkert illa meint.

Það var græskuleysi yfir þeim og lífsgleði þegar þær löbbuðu saman inn í matvöruverslun til þess að birgja sig upp fyrir kvöldið. Ekkert benti til þess að það yrði vesen á þeim.

Þetta er eftirminnilegt og ljúft æviskeið hjá mörgum—þegar hámark hedónismans er að háma í sig fimmtíu grömm af Toblerone súkkulaði, drekka dós af kóki og vaka fram yfir miðnætti yfir tölvuleik, bíómynd eða NBA; og vera nógu stór og sjálfstæður til að skipuleggja þetta algjörlega eftirlitslaust og á eigin spýtur. Fara meira að segja sjálfur út í búð eða sjoppu með sína eigin peninga og þurfa hvorki að spyrja kóng eða—í mínu tilviki—prest.

Ég ímynda mér að þeim hafi liðið svona þessum stúlkum. Þær voru enn á þeim aldri að eiga næga einlægni og gleði til þess að vera þær sjálfar. Það kemur ekkert annað til greina á þessum aldri og engin innri þörf á því að setja upp grímu gagnvart umheiminum.

Klögur og skammir

Og það var einmitt ástæða þess að þær voru stöðvaðar með offorsi á leiðinni inn í búðina . „Grímur!“ hrópaði pirraður starfsmaður á stelpurnar sem litu undrandi upp úr skemmtilega samtalinu sínu. „Ha?“ hváði önnur. „Þið verðið að vera með grímu,“ ítrekaði hann með valdsmannslegum þjósti. Það var átakanlegt að horfa á steinrunnin andlit stelpnanna, sem áttu sér einskis ills von, höfðu engum gert neitt og voru friðsælar í eigin heimi þegar skömmum er sturtað yfir þær eins og köldu vatni úr fötu. Þær voru á þeim aldri að vera kannski ekki alveg vissar um hvort sökin lægi hjá þeim sjálfum, og ekki í neinni aðstöðu til þess að skora valdhafa verslunarinnar á hólm. Leikurinn var ójafn.

Stemmning kvöldsins súrnaði. Þær brugðust ekki við með neinum stælum en reyndu að svara því af stillingu að þær væru ekki orðnar fimmtán ára og þyrftu því ekki að bera grímu. Blessaður starfsmaðurinn var greinilega ekki vel fyrir kallaður og heimtaði þá að þær sýndu skilríki. Önnur spurði þá hvort það dygði að sýna debetkort með kennitölu og virtist sem starfsmaðurinn teldi það vera mikla miskunnsemi af sinni hálfu að samþykkja það. Stúlkan fitlaði eitthvað í vösum og dró loksins upp kortið og rétti manninum. Hann tók við því og handfjatlaði rækilega og rýndi. Horfði til skiptis á kortið og stúlkugreyið, klóraði sér í skegginu og rétti það svo orðalaust aftur. Stúlkurnar stóðu nokkra sekúndur og biðu eftir merki um hvort málið væri leyst, en fengu enga staðfestingu á því fyrr en aðrir verslunargestir sögðu þeim að líklega væri þeim nú óhætt að fara inn í búðina.

Frjálst og friðsamt fólk

Kvöldið varð vonandi skemmtilegt hjá þeim vinkonum. En svona uppákomur skilja stundum eftir sig vont eftirbragð. Það er ekkert gaman að vera skammaður og undir eðlilegum kringumstæðum ættu hvorki börn, unglingar, fullorðið fólk eða gamalmenni að eiga á hættu að þurfa að sæta tilefnislausum skömmum og aðfinnslum frá samferðafólki sínu. En þessir skrýtnu tímar hafa alið á einmitt þannig hegðun; og í sumum löndum hafa stjórnvöld uppi áeggjan um slíka framkomu. Jessica Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, beinlínis manar almenning til þess að skipta sér af, klaga og skammast. Enginn má bregðast liðinu, eru skilaboð hennar til almennings í veirufrjálsa samfélaginu.

Gott er að hafa í huga að ýmsar einfaldar reglur sem langflestum finnst auðvelt að fylgja geta reynst öðrum þungbærar. Það er því mikið alvörumál þegar almenningur neyðist til að hegða sér á tiltekinn hátt, jafnvel þótt einungis minnihluta sé það á móti skapi. Við erum búin að venjast skrýtnum hlutum til þess að geta „lifað með veirunni“—og stöndum saman um það. Það mun líka reynast átak fyrir marga að læra smám saman að lifa án hennar, og vonandi mun það ganga vel og gerast sem fyrst. En það gæti þó reynt á þolinmæði, umburðarlyndi og samstöðu líka. En mikið er í húfi því fæst viljum við festa í sessi samfélag þar sem klögumál verða viðvarandi hluti af daglegu lífi okkar. Það væri sorglegt að skemma of margar huggulegar kvöldstundir fyrir frjálsu og friðsömu fólki nema ástæðan sé þeim mun brýnni.