Dásamlegasta fullveldisafsal sem nokkur maður getur hugsað sér er að finna rétta makann og deila með honum kjörum um ókomin ár, jafnt í blíðu og stríðu, en það hefur almennt verið kallað að festa ráð sitt.

Mikilvægasta fullveldisafsal hverrar þjóðar er að taka höndum saman við aðrar þjóðir í verslun og viðskiptum til að efla atvinnustig og afkomu almennings svo samfélagsþjónustan geti verið eins þróttmikil og kostur er.

Fullveldi, eitt og sér, án þátttöku í milliríkjasamningum og alþjóðlegu samstarfi, ber í besta falli stöðnunina í sjálfu sér, en þó líklega miklu fremur afturför, jafnt fyrir almenning og atvinnugreinar í hvaða landi sem er.

Því er nefnilega svo farið að fullveldi er nafnið tómt nema því fylgi efnahagslegt sjálfstæði. Og efnahagslegu sjálfstæði nær ekki nokkur þjóð nema að hámarka auðlindir sínar með frjálsum viðskiptum við aðrar þjóðir.

Og kannski er Ísland gleggsta dæmið um mikilvægi fullveldisafsals í þessum efnum, enda er ávinningur þess af hagkvæmum samningum um greiða leið varnings og þjónustu á eftirsótta markaði, með eindæmum mikilvægur. Og þeim mun ríkulegri er akkurinn sem samningarnir eru fjölþjóðlegri, enda er fullvíst að með því móti komi fámennar þjóðir ár sinni best fyrir borð – og tapa þar síður á fæð sinni eins og í tvíhliðasamningum.

Þrjár helstu fullveldisþjóðir í heiminum eru líklega Kúba, Norður-Kórea og Venesúela. Þær eru einangraðar og efnahagslega afskiptar. Fullveldi þeirra er óumdeilt. En það er innantómt. Þær geta ekki séð fólki sínu farborða.

Í þessum skilningi má skilja fullveldisástarsögur íslenskrar þjóðmálaumræðu á þá vegu að menn þrái að vera á Kúbunni.