Í vikunni birtist áhugaverður úrskurður Persónuverndar. Til mikillar einföldunar má segja að Persónuvernd hafi bannað manni að stilla út í glugga hjá sér falinni myndavél sem beindist að sameiginlegu svæði íbúa fjölbýlishúss en einnig að einkarými sumra þeirra. Sumt myndefni sem náðist með þessum lævíslega hætti var svo birt á myndbandsveitunni YouTube. Þetta fannst Persónuvernd líka vera ólöglegt og tilkynnti um niðurstöðuna um miðjan desember 2020, rúmlega einu ári eftir að upphaflega var kvartað yfir atferlinu. Í úrskurðinum segir að meðferð málsins hafi „dregist vegna mikilla anna hjá Persónuvernd.“

Vöktun eða njósnir

Í úrskurðinum er að finna margvíslegar áhugaverðar ásakanir sem upptökumaðurinn vildi meina að gætu réttlætt uppátækið, og af einhverjum lagatæknilegum ástæðum notast Persónuvernd við hugtakið „vöktun“ þegar lagt er mat á það hvort þessar upptökur hafi farið fram í „málefnalegum tilgangi“.

Í málinu virðist semsagt hafa legið nokkuð ljóst fyrir að nágranni ástundaði stöðugar njósnir gagnvart öðrum nágranna sínum og birti jafnvel hluta af efninu á YouTube.

Í mínum bókum heitir þetta ekki vöktun heldur viðvarandi njósnir. En í stað þess að afgreiða málið með hinum augljósa hætti, og fyrirskipa umsvifalaust að látið skyldi af athæfinu þá velkist spurningin um lögmæti persónunjósnanna innan kerfisins í rúmlega ár áður en úrskurðurinn er kveðinn upp. Og þótt úrskurðurinn falli (sem betur fer) mjög eindregið gegn þessum njósnum þá er umtalsverð umfjöllun um ýmiss konar réttlætingar sem varpað er fram—og þar með mætti halda að verið sé að gefa undir fótinn þeirri hugsun að meta þurfi vandlega hvort tilgangurinn kunni að helga meðalið.

Tilgangurinn og meðulin

Til eru tilvik þar sem fólk getur átt von á því að verið sé að fylgjast með því, til dæmis í verslunarhúsnæði þar sem kyrfilega eru gefnar viðvaranir um að upptaka sé í gangi til að afstýra þjófnaði. Á götum úti þarf fólk þar að auki að sæta í auknum mæli því að geta gert ráð fyrir að eftirlitsvélar lögreglu séu í gangi en um notkun þeirra gilda þó strangar reglur. Þar að auki hefur sú þróun orðið á síðasta áratug að nánast hvert einasta mannsbarn gengur með hágæða myndavél í vasanum og hægt er að taka upp með litlum fyrirvara, bæði í hljóð og mynd hvaðeina sem hugurinn girnist að skjalfesta; hvort sem er með eða án vitundar eða vilja þeirra sem lenda inni í linsu og hljóðnema.

Þessi þróun í samfélaginu er að eiga sér stað án mikillar umræðu. Þegar gróf og áberandi brot eiga sér stað á persónuvernd fólks; til dæmis þegar ósmekklegt fylleríisraus stjórnmálamanna er tekið upp og birt opinberlega, eða lögreglan nánast nafngreinir einstakling sem var á stað þar sem ástæða var talin til afskipta vegna sóttvarnareglna, er lítið sagt. Í svona tilvikum að undanförnu virðist sem það sjónarmið hafi verið allsráðandi að göfugur tilgangur helgi nánast öll meðul—og raunar hefur þurft að fara mjög varlega við að slá varnagla við aðferðunum þar sem slíkt hefur jafnan túlkast sem einhvers konar stuðningur við athæfið sem um er rætt.

Undanfarin ár hefur umræðan um persónuvernd átt undir högg að sækja. Gildismat samfélags getur breyst, oftast hægt en stundum ógnarhratt. Líklega er langhelst um að kenna gríðarlegum vilja fólks til þess að láta opinberlega uppi alls kyns upplýsingar um sjálft sig, ættingja og vini sem hefði fyrir örfáum áratugum þótt merki um einhvers konar brenglun. Og það er einmitt þegar breytingar eru hraðar sem það getur reynst gagnlegt að viðhafa ákveðna fastheldni á grundvallarreglur—í þessu tilviki þann helga rétt einstaklingsins að vera í friði frá eftirliti, vöktun eða njósnum, þótt ekki væri nema á sínu eigin heimili og umráðasvæði.

Eitthvað að fela?

Fyrir þá sem hafa hugsað út í mikilvægi persónuverndar, eða kynnst sér afleiðingar útbreiddra persónunjósna í mannlegu samfélagi, verður spurningin „Hvað hefurðu þá að fela?“ að hálfgerðum brandara. En því miður virðist ekki vanþörf á að rifja öðru hverju upp hörmungarnar sem koma upp í samfélagi þar sem hnýsni, njósnir, klögumál og söguburður þykja ásættanlegt athæfi. Meira að segja ágætlega skólagenginn maður eins og Eric Schmidt, sem var treyst fyrir að stjórna Google um langt árabil, gerðist sekur um að varpa fram því sjónarmiði að „ef þú ert að gera eitthvað sem þú vilt ekki að aðrir frétti, þá ættirðu kannski ekki að vera að gera það yfir höfuð“ í sjónvarpsviðtali fyrir rúmum áratug.

Þetta sjónarmið hefði kannski hljómað nokkuð krúttlegt komandi úr munni barns undir 12 ára, en flest okkar læra sem börn að gera greinarmun á því sem við viljum halda fyrir okkur sjálf og því sem okkur finnst í lagi að flagga fyrir öllum almenningi. Raunveruleikinn er auðvitað sá—að þegar allt kemur til alls—þá höfum við flest bara ýmislegt að fela sem við viljum ekki að fréttist eða við þurfum að útskýra eða réttlæta. Það þarf ekki einu sinni að vera glæpsamlegt eða siðferðislega ámælisvert. Sumir ganga með sjúkdómsgreiningar sem þeir vilja ekki að spyrjist út, eiga meiri eða minni peninga en aðrir halda, hafa einhvers konar venjur og áráttur sem þeir vilja ekki þurfa að útskýra fyrir öðrum og þar frameftir götunum. Við vitum flest að þegar allt kemur til alls þá eigum við okkur sjálf og á meðan við göngum ekki á rétt annarra eða meiðum aðra þá höfum við rétt til þess að eiga mest af lífi okkar í friði frá myndavélum, hljóðnemum, gagnagrunnum og vafrakökum.

Koma klæddur til dyra

Og við komum heldur að sjálfsögðu ekki alltaf til dyranna eins og við erum klædd. Í fyrsta lagi erum við ekki alltaf klædd og líklega hefðu fæstir áhuga því að fólk færi að ljúka upp útidyrunum hjá sér án þess að hylja sig með einhvers konar klæðum. Og í öðru lagi er það ekki til marks um leyndarhyggju, sýndarmennsku eða spéhræðslu að geta tekið ákvörðun um það hvernig maður kýs að koma fram á opnum vettvangi. Það felst meira að segja virðing og tillitssemi við náungann í því að gera sér far um að undirbúa sig smekklega áður en haldið er út af heimilinu og út í heiminn. Hvernig maður lítur út nývaknaður kemur bara engum við.

Sú hugmynd að hægt sé að réttlæta það að maður beini upptökuvél að heimili eða einkarými nágranna síns, og birti það jafnvel opinberlega, er því algjörlega fráleit. En því miður er margt sem bendir til þess nú, á tímum klögumála og óumbeðinna afskipta, að ítreka þurfi þessa sjálfsögðu reglu.