Fyrir mörgum árum var ég að halda fyrirlestur um heimilisofbeldi í einum af mínum uppáhalds framhaldsskólum og var að sýna nemendum niðurstöður fjölþjóðlegrar rannsóknar þar sem menn sem beitt höfðu konur sínar líkamlegu ofbeldi voru spurðir um ástæður ofbeldisins. Fram kom að alls staðar leituðu karlarnir skýringa í hegðun kvennanna og nefndu einkum sjö atriði í framkomu þeirra sem ástæðu ofbeldisins, svo sem að þær óhlýðnuðust, héldu örugglega fram hjá og hugsuðu ekki nógu vel um heimili og börn. Þarna benti einn nemandinn, sennilega meira í gríni en í alvöru að baráttan gegn heimilisofbeldi væri raunar sáraeinföld; að við konur þyrftum ekki að breyta nema sjö atriðum og þá væri ofbeldi úr sögunni.

Þessi skemmtilega athugasemd rifjaðist upp fyrir mér þegar ég las próförk af bókinni Líðan og upplifun þolenda & persónueinkenni gerenda sem Samtök um kvennaathvarf gefa út í dag, á þrjátíu og sex ára afmæli Kvennaathvarfsins. Þar er gerð grein fyrir svörum rúmlega tvö hundruð kvenna sem beittar hafa verið ofbeldi í nánu sambandi um ofbeldið. Þar kemur meðal annars fram að í um helmingi tilfella höfðu ofbeldismennirnir rakið ástæðu ofbeldisins til kvennanna sjálfra. Þessar upplýsingar geta því, út frá hugleiðingum framhaldsskólanemans skemmtilega, gefið okkur konum dýrmæta vísbendingu um það hvernig við getum komið í veg fyrir heimilisofbeldi á Íslandi.

Samkvæmt skýringum þeirra sem beittu ofbeldinu hefðu þeir ekki gert það ef konan hefði ekki verið eitt eða fleira af eftirtöldu; aumingi, brotin, drusla, erfið, fáviti, feit, frek, geðveik, hálfviti, heimsk, hrokafull,  ímyndunarveik, klikkuð, kvartsár, leiðinleg, mjó, óábyrg, óheiðarleg, óþolandi,  viðkvæm, vitlaus, vond móðir, æst eða almennt „svona eða hinsegin“. 

Aðrir vilja meina að þeir hefðu ekki beitt ofbeldi ef konan hefði ekki gert eitt eða fleira af eftirtöldu; beðið um að vera nauðgað, gert allt vitlaust, gert  lítið úr karlmennsku þeirra, haft samskipti við aðra karlmenn, látið elska sig svona mikið, misskilið hlutina, reitt þá til reiði, stuðað þá, vakið ótta um að þær ætluðu að yfirgefa þá, verið með stæla, ögrað þeim eða yfirhöfuð „látið þurfa“ að elta sig, fylgjast með sér, lemja sig,  meiða sig eða nauðga sér. Eða svona almennt ekki látið „svona eða hinsegin“.

Samkvæmt svörum þriðja hópsins hefðu konurnar getað komið í veg fyrir ofbeldið með því að svara í símann, þagga niður í börnunum, hlusta, stunda umbeðið kynlíf, vera skilningsríkar, svara skilaboðum strax  og almennt hagað sér „svona eða hinsegin“.

Konur í ofbeldissamböndum hafa í gegn um tíðina reynt að haga sér ýmist meira eða minna og vera ýmist meira eða minna  „svona eða hinsegin“ í því skyni að koma í veg fyrir að vera beittar ofbeldi en sú aðferð hefur reynst afleitlega sem forvörn.  Hins vegar má mæla með þeirri leið að sá sem ofbeldinu beitir læri að taka ábyrgð á því og leiti sér hjálpar með viðhorf sín og aðferðir við að vera í samskiptum, tjá tilfiningar og leysa ágreining.  Ávinningurinn af því gæti til dæmis verið að börnin hans minnist hans ekki sem manns sem þaggaði niður í þeim með því að berja móður þeirra og líklega finnst öllum, þegar öllu er á botninn hvolft það vera góð tilhugsun.

Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Samtaka um kvennaathvarf