Á kjördegi er vert að velta fyrir sér mikilvægi lýðræðisins, svo og skoðanafrelsisins, þeirrar gæfu að geta tjáð hug sinn án þess að fangelsið bíði manns.

Skoðanafrelsið hefur verið á undanhaldi. Sömu sögu verður að segja af sannleikanum. Hann hefur líka látið undan. Í stað þessa hafa komið upphrópanir, útúrsnúningur og orðhengilsháttur. Og fyrir vikið er jörðin orðin flöt. Hún hefur líkast til aldrei verið flatari.

Og skipta þar engu vísindaafrek síðari tíma, allar uppgötvanirnar og endurteknar sannanir á því sem hægt er að reyna og prófa. Hvítt skal vera svart – og svart skal vera hvítt.

En skoðanaskipti eru lífsnauðsynleg. Þau þroska og víkka hugann, svo og sjóndeildina. Fátt er í rauninni mikilvægara í mannlegum samskiptum en að skiptast á skoðunum, reifa hugmyndir og velta vöngum, kokka saman ráðgátuna um lífið sjálft.

Þess vegna er svo mikilvægt að umbera ólíkar skoðanir, njóta þeirra og læra af þeim, telja sig aldrei hafa höndlað sjálfan sannleikann heldur standa opinmynntur frammi fyrir gáfum annarra sem geta svo hæglega verið meiri og þroskaðri en manns eigin vitsmunir.

Og skoðanir þurfa að vera alla vega, hægra megin og vinstra megin og inn til miðjunnar – og ef því er að skipta, þar fyrir ofan og þar fyrir neðan. Og aðalatriðið er að gefa þeim rými, sýna þeim tillitssemi, hlúa að þeim í lífinu svo þær liti það, gefi því víddir og breikki samfélagið.

Það er á frelsisdegi eins og þeim sem nú líður sem Íslendingar þurfa að minna sig á að lýðræðið er verk sem er alltaf í vinnslu. Því er alltaf að þoka áleiðis – og vegferðin er og hefur verið mikilvæg, allt frá spilltu ofríki fámennrar karlaklíku til breiðrar og virkrar þátttöku alls almennings sem finnur til máttar síns í kjörklefanum, laus undan oki frændsemi og flokkshollustu.

Og hann getur hæglega skipt um skoðun, þessi eini og sami almenningur. Hann hefur til þess frelsi. Hann hefur til þess kerfi sem heitir lýðræði.

En að þessu öllu saman er sótt. Einræðisríki sem eru uppfull af sjálfum sér – og jafnvel einræðistilburðir í svokölluðum lýðræðisríkjum – ætla sér að kveða niður plágu sannleikans og skoðanafrelsisins. Þeim stendur ógn af umburðarlyndi og mannréttindum.

Það er af þessum sökum – og þær eru stórar – sem það þarf áfram að berjast fyrir lýðræði.