Fjölmiðlafólk á að rýna í mál og spyrja krefjandi spurninga í stað þess að láta sér nægja að mata almenning á hinum ótal fréttatilkynningum sem fjölmiðlum berast dag hvern. Óþægileg mál eru stöðugt að koma upp og ekki á að breiða yfir og fela þau. Fjölmiðlar eiga að spyrja og fái þeir ekki svör eiga þeir að þráspyrja. Einstaklingur sem kemur í viðtal við fjölmiðil vegna alvarlegs máls á ekki að komast upp með að svara engu. Þegar fréttamaðurinn fær ekki svör hlýtur hann að þráspyrja. Þetta blasir við og er nokkuð sem allir ættu að skilja. Líka stjórnmálamenn. Meðal þeirra eru þó alltaf einhverjir einstaklingar sem virðast ekki skilja þetta, en ættu sjálfra sín vegna að venja sig af þeim slæma sið að ásaka fjölmiðla um annarlegan tilgang, mislíki þeim frétt.

Ætíð er jafn furðulegt að sjá stjórnmálamenn rísa upp og mótmæla fréttaflutningi. Einkennilegast er þegar viðkomandi stjórnmálamenn eru fyrrverandi blaða- og fréttamenn, sumir þrautþjálfaðir í því starfi. Skilningur þeirra á fyrrum starfi sínu er skyndilega fyrir bí. Það er líkt og þeir hafi fyllst hroka við að taka sæti á Alþingi, telji þá þjóðfélagsstöðu jafngilda því að þeir hafi frábæra yfirsýn yfir þjóðfélagið og séu því manna best fallnir til að dæma um það hvað teljist rétt frétt og hvað röng frétt og hvenær fréttamenn hafi gengið of langt í fréttaflutningi.

Á liðnum árum hefur þjóðin hvað eftir annað horft upp á stjórnmálamenn stíga fram með ásakanir í garð fjölmiðla og fjölmiðlamanna. Fréttablaðið var kallað Baugsmiðill og þeir sem þar störfuðu Baugspennar. RÚV átti síðan að vera í stöðugri herferð gegn Sjálfstæðisflokknum og hefur verið sakað um að vera með hina og þessa í einelti og dekra blygðunarlaust við vinstri menn. Fjölmiðillinn Stundin er svo sagður hatast við nánast alla þá sem eitthvað hafa efnast. Þetta eru einungis nokkur dæmi. Þau eru svo miklu fleiri og fer lítið fækkandi með árunum.

Kunningi þeirrar sem þetta skrifar, venju fremur geðugur og glaðsinna stjórnmálamaður, sagði við hana fyrir einhverjum árum að þegar stjórnmálamenn færu að atast út í fjölmiðlafólk þá benti það til að þeir væru að fara á taugum. Þá hafði flokksbróðir stjórnmálamannsins, ráðherra, farið mikinn í gagnrýni á fjölmiðla sem hann sagði afar ósanngjarna í sinn garð. Fjölmiðlar voru þó einungis að benda á mistök sem ráðherra höfðu orðið á í starfi. Ráðherrann kannast alls ekki við nein mistök og var að því leyti dæmigerður, íslenskur stjórnmálamaður.

Einhverjum mánuðum seinna var stjórnmálamaðurinn, sem hafði komið fjölmiðlum til varnar, kominn í slag við fjölmiðla, sem hann sakaði um villandi fréttaflutning í máli honum viðkomandi. Hann taldi svívirðilega að sér vegið, þótt allflestum væri ljóst að hann hafði stigið slæmt víxlspor á sínum pólitíska ferli. Miðað við fyrri orð þessa sama stjórnmálamanns var erfitt að komast að annarri niðurstöðu en að hann hefði þarna farið illilega á taugum.