Dag hvern þylja fréttastofur víða um heim upp COVID-tölur dagsins og í þær er rýnt af stakri nákvæmni af alls kyns sérfræðingum. Aðrar fréttir falla að mestu í skuggann, meira að segja fréttir sem eiga afar brýnt erindi við allt mannkyn. Þannig hefur baráttunni gegn loftslagsbreytingum verið ýtt til hliðar. Henni er víst ætlað að bíða enn um sinn. Flestum ætti þó að vera ljóst að þjóðir heims hafa ekki efni á að sýna viðbragðs- og skeytingarleysi í loftslagsmálum. Þar er mannkynið að falla á tíma.

Ein og ein frétt birtist vissulega um loftslagsvána, en ekki fyrr en búið er að fara vel og vandlega yfir COVID-ástandið. Fyrir ekki löngu síðan birtist frétt á BBC um að hið gríðarlega magn af andlitsgrímum sem notaðar eru um allan heim sé alvarlegt bakslag í baráttunni gegn mengun. Þessi frétt var endurflutt nokkrum sinnum af áhyggjufullum fréttaþul en hvarf svo því nýrri og „mikilvægari“ fréttir þurftu að komast að. Svipuð örlög hlaut hrollvekjandi frétt um skelfilega skógareyðingu víða um heim, bæði skóga sem menn ryðja af fullkomnu miskunnarleysi og skóga sem eyðast af völdum loftslagsbreytinga. Frétt um að sjö milljónir manns, að minnsta kosti, deyi árlega vegna loftmengunar er ógnvænleg en týnist innan um tölur um dauðsföll vegna COVID. Skelfilega dapurlegar eru einnig fréttir um hrun í fjölbreytni lífríkisins. Ekki er þó talið mögulegt að bregðast snöfurmannlega við þessum illu tíðindum. COVID skyggir á allt annað, meira að segja hræðilegar fréttir eins og þessar.

Loftslagsbreytingar eru að kalla hörmungar yfir mannkynið. Æ erfiðara verður að snúa þeirri þróun við. Hugsanlega er það einfaldlega orðið of seint og þar getur mannkynið engum um kennt nema sjálfu sér. Það er þó enn mögulegt að draga úr þessari þróun og minnka skaðann, en það er kapphlaup við tímann. Þegar markmiðin eru síðan sett við ár sem eru órafjarri, eins og 2050 og 2070, þá er auðvelt að fyllast vonleysi og hugsa sem svo að baráttan sé töpuð.

Allir einstaklingar hljóta að þekkja það að hafa einhvern tímann staðið frammi fyrir vandamáli og óskað þess að það myndi hreinlega hverfa. Óskhyggjan sem læðist inn í heilabúið er: „Þetta er óþægilegt mál sem ég vil ekki taka á. Ef ég læt eins og það sé ekki til þá hverfur það kannski.“ Hin nöturlega staðreynd er sú að ef þessi leið er farin þá vefur vandamálið upp á sig og belgist út. Rétta leiðin var aldrei að hlaupa í felur. Það sama á við í umhverfismálum, það að fresta því að taka á vandanum er ávísun á enn frekari hörmungar – og eru þær þó nægar fyrir.

Mannkynið hefur lagt umhverfið undir sig í þeirri trú að það sé drottnari jarðarinnar og náttúran sé þögul og auðsveip og það geti gert við hana það sem því sýnist. Náttúran ætlar ekki að taka þeim átroðningi þegjandi og sýnir ofsafengin viðbrögð. Hún andmælir og berst af krafti í miðri eyðingu. Þótt ekki væri nema sjálfs sín vegna ætti mannkynið að taka mark á þeim viðbrögðum.