Ný reglugerð um velferð gæludýra kom út 2016. Í reglugerðinni er margt til bóta fyrir gæludýr og verður sérstaklega að benda á leyfilega búrstærð sem heimilt er að halda hunda í til daglegrar vistarveru. Mikill munur er á þeim og á ferðabúrum.

Sá vondi siður hefur því miður mótast á Íslandi undanfarin ár að geyma hunda í ferðabúrum. Sums staðar eru þeir lokaðir inni í þessum búrum yfir nóttina og svo hleypt út til að pissa á morgnana. Lokaðir aftur inni í búrunum yfir daginn á meðan eigandinn er að vinna og síðan hleypt út síðdegis. Þessir hundar eru því hreinlega lokaðir inni í ferðabúrum meiri hluta sólarhringsins. Svo eru þeir jafnvel lokaðir aftur inni í búrinu allt kvöldið.

Oft er sú ástæða gefin að þeir séu órólegir eða erfiðir, eða af því að þeim finnist sjálfum þeir bara vera öruggir í búrunum sínum. Þetta er dapurleg lausn, byggð á algerum misskilningi eða á tilhneigingu okkar mannanna til að finna auðvelda leið fyrir okkur sjálf.

Með þessum hætti losum við okkur við vinnuna við að umhverfisþjálfa hundana og því getur komið fram hegðunarvandi. Í 18. grein reglugerðarinnar um aðbúnað og umönnun hunda segir að umráðamaður þurfi „að sinna umhverfisþjálfun og félagslegri þörf hans við manninn“.

Hundur sem er ekki umhverfisþjálfaður er í raun vanræktur. Hann verður vansæll. Fólk sem heldur hunda með ábyrgum hætti veit að það þarf að aðlaga þá að lífinu með manninum. Við kennum hundinum að halda ró sinni í ýmsum aðstæðum, dvelja í ferðabúrum á ferðalögum, sinnum honum sem vini og félaga og sjáum honum fyrir nægilegri hreyfingu og atlæti. Hundar sem eru umhverfisvandir kunna sig og eru öllum til ánægju.

Það er dapurlegt til þess að hugsa hversu margir óumhverfisvandir hundar verja meirihluta sólarhringsins innilokaðir í litlum búrum, en fólk þarf að vera meðvitað um að það er ekki heimilt og ekki í samræmi við dýravelferð.

Notkun ferðabúra til daglegrar vistarveru er bönnuð í nágrannalöndum okkar vegna þess að vitað er að hún er andstæð velferð hundanna. Það var sannarlega líka kominn tími til að leiðrétta þetta hér heima með þessari nýju reglugerð. Flutningsbúr, eins og þau eru nefnd í reglugerðinni, eru einfaldlega til að flytja hunda í á milli staða. Í 13. gr. um flutninga segir að búrið skuli: „vera það rúmt að gæludýrið geti staðið í því, snúið sér við, legið og hvílst.“ En þetta eru ekki viðmið fyrir daglegar vistarverur. Þar gilda allt aðrar stærðir og þær koma fram í töflu í viðauka II við reglugerðina. Margir hafa opin ferðabúr á heimilum sem hundar fá að velja sjálfir að nota og búrinu er ekki lokað á eftir þeim, þá er það eins og hvert annað ból sem hundurinn kýs að nota og getur stigið út úr. En þegar við erum að loka á eftir hundunum þá gildir önnur regla.

Fyrir allra minnstu hundana má gólfrýmið í daglegum vistarverum ekki vera minna en tveir fermetrar. Fyrir hunda eins og labrador þarf allt að fjórum og hálfum fermetra. Víða erlendis notar fólk færanlegar grindur eða til dæmis eitt ákveðið herbergi til að halda hundana í sem daglegar vistarverur. En hvaða leið sem við veljum, snúum samt bökum saman gegn þessari óheillabraut með ferðabúrin – hættum að nota þau til að „geyma“ hundana í. Það er ekki góð meðferð á dýrum.

Viðmið -  Lágmarksflötur búra og stía fyrir hunda í fermetrum