Það kom alveg flatt upp á mig hversu snúðugur ég varð vegna lokunar ölstofu nokkurar hér í hverfinu mínu. Ekki síst vegna þess að ég hafði aldrei inná hana komið né vætt kverkar á stéttinni fyrir utan hana. Hins vegar þótti mér vænt um þá tilhugsun að þarna kæmu saman eldri menn og færu með gamanmál, og að þarna skyldu aðrir lesa dagblöðin yfir kaffibolla og svo fengu bændur sér þarna anís áður en haldið var útá akurinn. Í þessum þönkum áttaði ég mig á því að ég og heimurinn erum svo samrýmdir að hvorugur okkar veit hvar einn hættir og hinn byrjar. Það er þess vegna sem mér þykir svo vænt um þá tilhugsun að Kvæðamannafélagið Iðunn sé til þó ég hafi aldrei kveðið rímu í þeim félagsskap. Þetta er síður en svo einstakt tilfelli, öll verðum við stundum meyr gagnvart fegurð heimsins, jafnvel bara tilhugsuninni um hana, og sjálfsagðir hlutir öðlast þá skyndilega mikla merkingu.

En við erum ekki alltaf ölvuð af þessu fagnaðarerindi því fólk verður stundum gráðugt og þá er venjulegast ekki langt í að slettist uppá vinskapinn við veröldina. Enda hættir fólk að hugsa skýrt þegar það reiðist og heimurinn virðist allt í einu vera á sporbaug um nafla manns og ekkert verður merkilegt nema maður sjálfur. Meira að segja fyrirbæri einsog þing og lýðræði virðast hreinir smámunir í samanburði. Svo næst þegar þú reiðist skaltu slaka á, anda djúpt og ekki hætta fyrr en þú finnur fyrir yfirþyrmandi ást á Kvæðamannafélaginu Iðunni.