Það sem allir vilja verða en enginn vill vera – er gömul gáta og lausnarorðið var „gamall“. Vísað var til þess að ungir vildu gjarnan verða eldri, fá bílpróf, slá sér upp, komast inn á skemmtistaði eða geta keypt áfengi möglunarlaust. En enginn vildi vera gamall. Þetta er gömul saga og ný.

Það er ekki gott að eldast á Íslandi. Fólk sem hvorki getur búið heima með góðu móti en er samt of frískt til að fá vist á hjúkrunarheimili, líður fyrir að almennt skuli ekki vera til stig á milli þessara tveggja kosta. Búseta á eigin heimili er auðvitað ákjósanlegust en þar kemur að það verður erfitt. Ýmislegt er boðið fram til að gera búsetu eldra fólks á eigin heimilum bærilega og lengja tímann þar sem hún er möguleg. En oft er aðstaðan sú að maki þarf að sætta sig við að taka að sér hjúkrunarhlutverk sem getur takmarkað lífsgæði hans.

Í Fréttablaðinu á fimmtudag greindi frá könnun þar sem í ljós var leitt að ríflega 81 prósent svarenda taldi frekar eða mjög illa staðið að málefnum eldri borgara á Íslandi þegar kemur að hjúkrunarheimilum.

Jafnframt kom í ljós að innan við eitt prósent þeirra sem svöruðu telja að mjög vel sé staðið að málefnum eldri borgara og ríflega sex prósent fremur vel. Þegar að er gáð eru það yngstu svarendurnir sem þannig líta á mál. Það kemur svo sem ekki sérstaklega á óvart.

Helgi Pétursson, formaður Landssambands eldri borgara, sagði í fréttinni þegar niðurstöðurnar voru bornar undir hann, að verið væri að gefa frat í kerfið. „Það er eins og stjórnmálafólkið og krakkarnir sem eru að fara með peningana hérna fatti þetta ekki. Staða hjúkrunarheimila er vandamál sem hefur horft ískalt framan í okkur lengi, það eru allir búnir að benda á þetta vandamál og það er með ólíkindum að enginn ætli að taka á þessu.“ Hann bendir á að brúa þurfi bilið milli þess sem fólk býr enn heima hjá sér og á hjúkrunarheimili. Búseta á eigin heimili henti ekki öllum þó þeir þurfi ekki á hjúkrunarheimili. „Búsetuúrræði fyrir eldra fólk eru ekki nógu fjölbreytt.“

Fyrir liggur að þjóðin eldist og hópur þeirra sem eldri eru vex hægt en örugglega. Verkefni samfélagsins verða að taka mið af því.

Það stingur því í stúf við þá staðreynd að um þessar mundir séu helstu viðfangsefni varðandi öldrunarþjónustu rifrildi um hvort rekstur hjúkrunarheimila skuli vera á borði ríkis eður ei.

Helgi Pétursson segir í niðurlagi tilvitnaðrar fréttar að það geti verið kvíðavaldandi fyrir fólk að vita að þeirra „næsta stopp“ sé hjúkrunarheimili, þar sem fólk telji ekki vel staðið að málefnum þeirra. „Þetta getur valdið fólki miklum áhyggjum, sjálfur er ég 72 ára og ef ég á ekkert eftir nema þetta þá líst mér ekki á það.“

Ef allt væri með felldu ætti að vera eftirsóknarvert að eldast, geta notið ávaxta ævistarfsins í vissu þess að vera ekki byrði á maka, fjölskyldu, ættingjum eða vinum.

Við skuldum þeim sem gamlir eru að betra verði að eldast á Íslandi. ■