Skoðun

Að búa í haginn fyrir næstu niðursveiflu

Bandaríski fjárfestirinn Howard Marks skrifaði eitt sinn frægt minnisblað um hagsveiflur og eðli þeirra. Í minnisblaðinu, sem bar titilinn „You can’t predict – you can prepare“, fjallar hann um hvernig fjárfestar ættu að nálgast hagsveiflur og hversu lítið gagn er að því að reyna að spá fyrir um þær. Það eina rétta í stöðunni að hans mati er að viðurkenna tilvist þeirra og búa í haginn til að vera ekki berskjaldaður fyrir þeim. Þú getur illa spáð fyrir um kreppurnar en þú getur búið þig undir þær.

Nú þegar tíu ár eru liðin frá fjármálahruninu er vel þess virði að huga að einmitt þessu – hvernig hægt er að búa í haginn fyrir óhjákvæmilegar niðursveiflur. Eitt af því mikilvægasta sem stjórnendur fyrirtækja geta gert í þessu tilliti er að afla sér verðmætra gagna til að geta greint núverandi stöðu eins vel og kostur er og þannig búið sig undir næstu niðursveiflu.

Það þekkja það allir sem reka fyrirtæki að ráðdeild í rekstri með takmarkaðri skuldsetningu og góðu skipulagi er eitt það allra besta sem hægt er að gera til að standa af sér stormviðri hagsveiflna. En hvað er fleira til ráða þegar kemur að undirbúningi fyrir ytri áföll í rekstri? Ein góð leið til þess er að greina eins vel og mögulegt er alla þá viðskiptavini og birgja sem fyrirtæki skiptir við með það fyrir augum að skilgreina hverjar áhætturnar eru í viðskiptasafninu og stuðla að upplýstri ákvarðanatöku og auknum stöðugleika.

Upplýst ákvarðanataka

Með réttu gögnunum er þetta á færi allra fyrirtækja, ekki bara þeirra sem hafa efni á sérfróðu starfsfólki í áhættustýringu. Hægt er til dæmis að draga fram í hvaða geirum fyrirtækið á í mestum viðskiptum til að meta hversu berskjaldað viðskiptasafnið er fyrir breytingum í ákveðnum atvinnugreinum. Til dæmis segir það sig sjálft að ef ferðaþjónustufyrirtæki eru stór hluti af viðskiptasafni fyrirtækis, þá er reksturinn að einhverju leyti berskjaldaður fyrir sveiflum í þeim geira. Að sama skapi er mikilvægt að draga fram fyrirtæki í viðskiptasafninu sem standa höllum fæti. Þar getur lánshæfismat fyrir­tækja gefið sterkar vísbendingar því lánshæfismat metur líkurnar á því að fyrirtæki fari í vanskil. Þannig er hægt að lágmarka tapaðar kröfur og afskriftir og koma í veg fyrir að ófarir annarra fyrirtækja hafi áhrif á eigin fyrirtækjarekstur.

Miklu máli skiptir að hafa eins djúpt yfirlit upplýsinga um fyrirtæki í viðskiptasafninu og völ er á en það er ekki síður mikilvægt að geta aflað slíkra upplýsinga þegar ný fyrirtæki koma í viðskipti. Ársreikningar þeirra, lánshæfiseinkunn, eignatengsl og orðspor í fjölmiðlum er á meðal þeirra gagna sem geta komið þínu fyrirtæki skrefinu lengra í skilvirkri áhættustýringu með það að marki að auka stöðugleika í rekstri og lágmarka áhættuna á ófyrirséðum afleiðingum ytri áfalla.

Hvar stendur þitt fyrirtæki?

Í áðurnefndu minnisblaði Howards Marks talaði hann um að það skynsamlegasta sem fjárfestar geta gert til að standa af sér niðursveiflur er að þekkja núverandi stöðu eins vel og kostur er á. Þegar fjárfestar vita hvar þeir standa í hagsveiflunum þá geta þeir annaðhvort aukið eða dregið úr áhættu eftir því hvernig viðrar hverju sinni. Það sama gildir um stjórnendur fyrirtækja. Ef þeir hafa ekki ítarleg gögn um stöðu viðskiptavina sinna þá eiga fyrirtæki þeirra á hættu að verða jafn veikburða og veikasti hlekkurinn í viðskiptasafni þeirra. Ef þeir hins vegar þekkja stöðu sinna viðskiptavina og átta sig á því hvort fyrirtæki þeirra sé berskjaldað fyrir ytri áföllum þá geta þeir brugðist við niðursveiflum með skynsamlegum og ábyrgum hætti.

Höfundur er forstöðumaður viðskiptastýringar Creditinfo. 

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Fastir pennar

Ósungnar hetjur jólanna
Sif Sigmarsdóttir

Fastir pennar

Ábyrgð óábyrgra
Kristín Þorsteinsdóttir

Bakþankar

Réttarríkið og RÚV
Sirrý Hallgrímsdóttir

Auglýsing

Nýjast

Sprengju kastað
Þorsteinn Sæmundsson

Bara misskilningur um aldursgreiningar?
Jóna Þórey Pétursdóttir

Öldrunar­þjónustan á Ís­landi - brettum upp ermar!
Þórhildur Kristinsdóttir, Baldur Helgi Ingvason og Guðlaug Þórsdóttir

Að brjóta af sér
Heiðar Guðjónsson

Úlfur, úlfur
Hörður Ægisson

Kappið og fegurðin
Þórlindur Kjartansson

Auglýsing