Þótt við stærum okkur af framúrskarandi heilbrigðisþjónustu eru á henni agnúar sem treglega gengur að sníða af. Biðlistar eftir lífsbætandi heilbrigðisþjónustu eru til vitnis um það. Nefna má liðskiptaaðgerðir sem dæmi í því samhengi. Í því tilviki þurfa þeir sem búa við skert lífsgæði að bíða misserum saman eftir liðskiptum, til að mynda í hné eða mjöðm, á opinberu sjúkrahúsi, þegar í boði er að minnsta kosti jafngóð lausn í einkarekstri en þá þarf sá þjáði að standa straum af kostnaðinum sjálfur og án greiðsluþátttöku hins opinbera.

Umræða um einkarekstur í heilbrigðiskerfinu er ekki ný af nálinni hér á landi. Um árabil hefur heilbrigðisþjónusta verið veitt með blönduðu fyrirkomulagi, sumt á vegum einkarekstrar og annað á hendi ríkis.

Fyrir stuttu kynnti BSRB könnun sem Félagsvísindastofnun framkvæmdi. Um niðurstöðu könnunarinnar sagði bandalagið á heimasíðu sinni að þjóðin hafni einkarekstri í heilbrigðiskerfinu.

Í vikunni birtust hér í blaðinu tvær aðsendar greinar. Önnur eftir formann BSRB, þar sem fullyrt var að niðurstaða könnunarinnar sýni að mikill meirihluti landsmanna vilji heilbrigðiskerfi sem rekið er af hinu opinbera fyrir skattfé og hafni aukinni einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu.

Hina skrifuðu formaður Læknafélags Reykjavíkur og stjórnarmaður í félaginu um uppslátt bandalagsins að sú staðhæfing rími ekki við niðurstöður könnunarinnar. „Gögnin eru afdráttarlaus um að þetta eigi vissulega við um sjúkrahúsrekstur en ef aðrir þættir heilbrigðiskerfisins eru skoðaðir er niðurstaðan þveröfug.“

Í gær spurðist út að læknastofum Domus Medica verði lokað um næstu áramót. Þar hefur verið hýst fjölbreytt heilbrigðisþjónusta frá því 1966 við börn og fullorðna. Haft var eftir framkvæmdastjóra fyrirtækisins að um sé að kenna ríkisvæðingarstefnu stjórnvalda.

Heilbrigðisráðherra hefur verið borið á brýn að vera heldur fylgjandi ríkisrekinni heilbrigðisþjónustu en hinni einkareknu, enda eru engin merkjanleg teikn um að ráðherrann styðji í verki hið blandaða kerfi einkarekinnar og ríkisrekinnar heilbrigðisþjónustu sem verið hefur hér við lýði í áratugi. Þvert á móti hefur hún stigið áberandi skref til ríkisvæðingar. Nýlega var krabbameinsleit í brjóstum og leghálsi kvenna flutt úr höndum Krabbameinsfélagsins til hins opinbera. Ekki verður beinlínis sagt að sú framkvæmd hafi gengið snurðulaust.

Til stendur að innleiða nýtt bókhaldskerfi í opinberum heilbrigðisrekstri með það að markmiði að greitt verði fyrir hvert viðvik líkt og í einkarekna kerfinu. Um hríð hefur kerfið verið til reynslu innan Landspítalans og ættu heilbrigðisyfirvöld því að hafa góða hugmynd um hvað hver aðgerð kostar hjá hinu opinbera annars vegar og hjá einkaaðilum hins vegar.

Fyrirkomulag þessara mála til framtíðar hlýtur að verða eitt af stóru kosningamálunum í haust.

Áður en gerðar verða fleiri kannanir, og sérstaklega áður en þetta mikilvæga mál fer í dóm kjósenda, þarf að fá þessar upplýsingar fram.

Umræðuna þarf að byggja á staðreyndum en ekki því sem manni finnst, hvort sem um ráðherra eða formann hagsmunasamtaka er að ræða.