Um áramót er til siðs að líta um öxl og gera upp árið sem er að líða. Þá er um leið ágætt að spyrja hvað hefði átt að gera betur. Hér skal því haldið fram að þjóðin hefði átt að vera iðnari að spyrja yfirvöld, stjórnvöld og sótttvarnayfirvöld krefjandi spurninga.

Í langan tíma höfum við vegna farsóttar búið við höft sem takmarka mannréttindi fólks, hafa alvarlegar efnahagslegar afleiðingar og valda kvíða og ótta. Þetta getur hvorki talist eðlilegt né farsælt. Það má vissulega venjast höftum, jafnvel svo mjög að litið sé á þau sem nýjan veruleika sem verði að lifa við. Það er ótti sem stjórnar slíkri hugsun, sem er því miður orðin of áberandi íslensku samfélagi. Það væri verulega óhuggulegt ef hún yrði allsráðandi.

Það er ætíð mikilvægt að gefa gagnrýninni hugsun rými. Það á ekki að gera lítið úr henni og alls ekki stimpla hana sem óviðeigandi eða ótímabæra. Á tímum heimsfaraldurs með tilheyrandi höftum er einmitt brýn þörf á gagnrýninni hugsun. Það má ekki verða svo að það teljist fullkomlega eðlileg viðbrögð að kinka samþykkjandi kolli í hvert sinn sem stjórnvöld takmarka rétt okkar og boða ný höft. Við verðum að halda vöku okkar. Yfirvöld eru ekki alvitur og þótt þau séu, skulum við ætla, vel meinandi þá á það ekki að nægja til að við högum okkur eins og hlýðin hjörð sem gengur auðsveip í þá átt sem henni er bent að fara. Ef við temjum okkur hjarðhugsun þá geta yfirvöld auðveldlega gengið á lagið. Þá skiptum við sem einstaklingar ekki lengur máli heldur erum við hópur sem lætur auðveldlega að stjórn. Samfélög sem hafna einstaklingum og afneita réttindum þeirra finnast á jarðarkringlunni. Þaðan fáum við reglulega hrollvekjandi fréttir sem eiga að vera okkur víti til varnaðar

Hér skal þeim þakkað sem á tímum farsóttar hafa spurt krefjandi og óþægilegra spurninga. Þar á meðal eru stjórnmálamenn, sem reyndar eru flestir úr sama flokknum. Hver skyldi vera skýringin á því? Oft hafa þeir einstaklingar sem sett hafa spurningarmerki við harðar aðgerðir fengið yfir sig skammardembur fyrir að reyna að rjúfa það sem kallað er „nauðsynleg samstaða þjóðarinnar“. Þeir hafa jafnvel verið kallaðir öllum illum nöfnum. Æ fleiri eru þó farnir að virða þá sem standa mannréttindavaktina á tímum þegar við megum alls ekki gleyma því að við erum frjálsir einstaklingar en ekki eign yfirvalda.

Gleðilegt ár, kæru landsmenn!