Tilfinningar mínar í garð Íslenskrar erfðagreiningar upp á síðkastið hafa verið blendnar. Fyrirtækið byrjaði árið með fullyrðingum um tengsl fitu og greindar, sem ég tók svolítið til mín, verandi með talsvert af aukakílóum utan á mér frá því um hátíðarnar. En erfðavísindamennirnir knáu komu sér aftur í mjúkinn hjá mér um daginn með því að útskrifa mig á persónuleikaprófi fyrirtækisins með 87% víðsýni.

Að vísu byggði sú niðurstaða fyrst og fremst á því hvernig ég svaraði spurningum um sjálfan mig á prófinu en stimpill frá þekktu vísindafyrirtæki gefur þessu náttúrulega bullandi trúverðugleika.

Annars tók ég eftir því að ég var ekki sá eini sem skoraði hátt í víðsýni. Miðað við þá sem birtu sínar niðurstöður opinberlega þá virðast Íslendingar almennt telja sig afar víðsýna. Það er í anda þess sem maður upplifir á samfélagsmiðlum. Við teljum okkur almennt víðsýn, raunar svo víðsýn að við erum óhrædd við að benda hinum, þessum þröngsýnu, á skort þeirra á víðsýni.

Þetta er meginstefið í allskonar menningarlegum deilum þjóðarinnar; grænmetisætur gegn kjötætum, úrbanistar gegn úthverfunum, höfuðborgin gegn landsbyggðinni, einkabíllinn gegn hjólreiðum, Miðflokkurinn gegn öllum hinum. Hvor deiluaðili telur sig nálgast málin af víðsýni andspænis ótrúlegri þröngsýni hins hópsins. Og ekki bara víðsýni, heldur líka umburðarlyndi, frjálslyndi, framsýni, virðingu, sanngirni og réttlæti. Annað en hinn hópurinn, sem stendur ekki fyrir neitt af þessu.

Og þar komum við kannski að kjarna þess að vera víðsýnn. Hversu víðsýnt er að finnast gagnstæðar skoðanir heimskulegar? Væri kannski réttara að setja niðurstöður persónuleikaprófsins fram þannig að víðsýni hafi mælst mjög mikil, að því gefnu að fólkið í kringum þig sé sammála öllum þínum skoðunum?