75 ár

Margt getur gerst á 75 árum. Og margt hefur gerst frá því Ísland varð lýðveldi á þessum degi árið 1944. Heimsstyrjöld kláraðist, kalda stríðið kom og fór og Mean Girls 2 var framleidd svo fátt eitt sé nefnt. Íslenskt samfélag hefur breyst ofboðslega mikið á þessum 75 árum. Lífslíkur hafa hækkað, Íslendingum fjölgað úr 125.967 í tæp 360 þúsund, kílóið af hveiti hækkað talsvert úr þeirri rúmu krónu sem það var og vergar þjóðartekjur fimmtánfaldast samkvæmt Hagstofunni. Samhliða hafa lífsgæði aukist verulega.

Opið Ísland

Ýmislegt hefur stuðlað að þessum breytingum. Einn mikilvægasti þátturinn er alþjóðavæðing og aukið samstarf við önnur ríki. „Áður vorum við á meðal fátækustu þjóða Evrópu en erum nú ein sú ríkasta. Ein ástæðan er sá aðgangur sem við höfum að öðrum mörkuðum,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra á dögunum.

Nú þegar lýðveldið fagnar stórafmæli er því vert að hafa það í huga hvað hefur reynst okkur vel á þessum 75 árum. Draga má lærdóm af fortíðinni, sérstaklega nú þegar einangrunarhyggja og raunverulegar efasemdarraddir um ágæti EES-samningsins eru farnar að heyrast æ oftar.