Margt gerist undarlegt í stjórnmálum. Það verður þó að teljast hátt stig undarlegheitanna, þegar fylgismenn Vinstri grænna eru nánast upp til hópa, 71% þeirra, óánægðir með og á móti ríkisstjórn, sem þeirra eigin formaður, Katrín Jakobsdóttir, leiðir.

Á sama hátt er það auðvitað meira en óvenjulegt, að 88% sjálfstæðismanna og 82% framsóknarmanna, en þetta fólk, ásamt með Miðflokksmönnum, verður að teljast langt til hægri, úti á íhaldsjaðrinum, skuli vera ánægt með og styðja ríkisstjórn, sem formaður Vinstri grænna, sem á að vera einna lengst úti á vinstri vængnum, leiðir.

Ofangreindar staðreyndir um óvinsældir og vinsældir ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur byggjast á skoðanakönnun Maskínu, fyrir fréttastofu Sýnar frá 6. júlí sl.

Hvað skýrir þessa bráðundarlegu og óvenjulegu stöðu?

Menn þurfa ekki að kafa djúpt í skilningavitin til að átta sig á, að til að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn, nánast upp til hópa, séu ánægðir með tiltekna ríkisstjórn, hljóti hún að uppfylla þeirra hugmyndir og óskir um stefnumál og pólitík. Hafa stefnumál þessara manna í háum heiðri.

Á sama hátt er það sjálfgefið, að óánægja fylgismanna Vinstri grænna með sömu ríkisstjórn, líka í yfirgnæfandi mæli, hljóti að stafa af því, að þessi ríkisstjórn hafi virt að vettugi, eða skort vilja og getu, til að koma þeirra stefnumálum á dagskrá, og, það sem meira er, í framkvæmd.

Ég taldi upp í grein hér í blaðinu 24. júní sl. fimm megin stefnumál Vinstri grænna, sem áttu að komast í framkvæmd í þessari ríkisstjórn, en fóru öll í vaskinn:

Friðun hvala, þjóðgarður á miðhálendinu, friðun villtra spendýra og fugla, stórt skref í loftslagsvernd og endurskoðun stjórnarskrár. Allt í lok dags bara sápukúlur, sem svifu upp í háloftin.

Fylgismenn Vinstri grænna hafa með afstöðu sinni tjáð sig með skýrum hætti um það, að svona ríkistjórn vilji þeir - sennilega aldei – aftur vilja sjá.

En hver er afstaða prímadonnunnar sjálfar, Katrínar? Lengst af og, þegar ég heyrði síðast til hennar með þetta, virtist hún vera hin hressasta og ánægðasta með þessa ríkisstjórn og alveg til í annan svona ríkisstjórnardans.

Já, það er margt skrýtið í kýrhausnum.

Ofangreint er auðvitað meira innlegg í hugleiðinguna um stöðu formanns Vinstri grænna gagnvart sínum flokks- og fylgismönnum, og, þá um leið, stöðu þeirra gagnvart formanni. Getur hér verið mikið eða nokkuð eftir af gagnkvæmum skilningi, harmóníu og trausti, má spyrja.

Nú kunna ýmsir að hugleiða og vilja velta upp, af hverju nefnir maðurinn ekki „góðu mál“ forsætisráðherra, Vinstri grænna og ríkistjórnarinnar, í stað þess að tönglast bara á vanhöldum, stuðningssveiflum og sundurþykkju.

Í huga undirritaðs eru tvö stórmál, sem flokka má sem „góðu málin“: Stjórn efnahgsmála og bólusetningarátak og -árangur. Það er þá sjálfsagt, að líta yfir þau líka.

Hvorutveggja eru þetta stór mál og góð, en spurningin verður: Voru hér einhver sérstök afrek unnin, sem tilefni gæfu til sérstaks hróss eða vinsælda?

Ríkisstjórnin tók umfangsmikil lán, innanlands og erlendis - þau erlendu með gengisáhættu - fyrir samtals um 500 milljarða. Þessu fé var svo miðlað til fyrirtækja og almennings, líka til sveitarfélaga og annarra aðila í þjóðfélaginu til að gera þeim kleift að komast í gegnum og lifa af þau vandræði, sem COVID olli.

Þetta var gert með nokkuð skynsamlegum og skipulegum hætti, þannig, að aðgerðir tókust vel. Þetta er þó ekkert meira eða merkilega heldur en það, sem nánast allar aðrar ríkisstjórnir hins vestræna heims gerðu; lán voru tekin til að halda mönnum og málefnum gangandi meðan pestin varði.

Lausnin var lántaka, sem við og komandi kynslóðir þurfum svo að standa skil á. Að mestu tilfærsla vandans.

Reyndar gerði ríkisstjórn Íslands það, sem engin önnur ríkisstjórn lét sér einu sinni detta í hug: Hún verðlaunaði fyrirtæki í stórum stíl, ekki fyrir að ráða menn í vinnu, heldur fyrir að segja þeim upp. Undirritaður kann að vera tregur, en þessa aðferð skildi hann aldrei vel.

Varðandi bólusetningar og góðan árangur í þeim, þarf tvennt til: Bóluefnið og heilbrigðiskerfi og starfsmenn þar, sem geta bólusett hratt, skipulega og vel.

Þökk sé því, að ESB gekk strax í það að fjármagna þróun og framleiðslu bóluefnis, vorið 2020, um leið og sambandið tryggði sér fyrsta aðgang að bóluefni fyrir ESB-ríkin 27, svo og Ísland og Noreg, hjá sex leiðandi lyfjafyrirtækjum, með milljarða fjárframlagi í Evrum, og þökk sé vinarhug Ursulu von der Leyen, forseta ráðherraráðs ESB, gagnvart Íslandi og Íslendingum, tókst að útvega bóluefni fyrir meginþorra þeirra, sem bólusetja átti, fljótt og vel.

Hér valdi ríkisstjórnin leiðina, þá einu réttu, með ESB, og hafði milligöngu um samskiptin og viðskiptin, sem var allt gott og þakka má fyrir, en hér voru heldur engin afrek unnin af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Stýring og aðgerðir í faraldrinum voru í höndum sóttvarnalæknis og heilbrigðisyfirvalda, embættismanna og starfsliðs, og komu tillögur um framgang og aðgerðir á hverjum tíma frá þeim, sem ríkisstjórn lagði svo blessun sína mest yfir.

Þetta tókst allt vel, en megin þakklætinu fyrir árangurinn verður þó að beina að stjórnendum og starfsmönnum heilbrigðiskerfisins; hlutur forsætisráðherra og ríkisstjórnar er hér nokkur, en ekki í þeim mæli, að hann verðskuldi þreföld húrrahróp.

Höfundur er alþjóðlegur kaupsýslumaður og stjórnmálarýnir.