Nú við upphaf þriðja áratugar 21. aldar búum við í alþjóðlegum menningarheimi sem er undir miklum áhrifum tæknivæðingar, samfélagsmiðla og annarra áhrifaþátta samtímans. En þessi alþjóðlegi heimur er þó að ýmsu leyti sundraður, sé litið til þeirra ólíku efnahagslegu og stjórnmálalegu afla sem togast á og setja ríkan svip á samtímann. Í slíkum heimi felast bæði ótrúleg tækifæri til aukinnar velferðar allra, en einnig hættur sem felast í öfgakenndum skoðunum, falsfréttum og yfirborðsmennsku. Þá kallar móðir jörð á aukna umhyggju og vernd, ákall sem við verðum öll að standa saman um að svara. Það bíða okkar flókin verkefni á árinu 2020 og við verðum að treysta grunnstoðirnar, menntakerfið, svo unga fólkið gangi öflugt til verks. Skilvirkt menntakerfi, framsæknir skólar á öllum skólastigum og vandaðar og frjóar rannsóknir skipta sköpum til að treysta innviði samfélagsins og stuðla að samfélagslegri þróun.

Formleg og óformleg menntun

Menntun er æviverkefni sem lýkur aldrei, enda sækir nútímafólk sér menntun án afláts og endurnýjar þannig hæfni sína og þekkingu. Í fræðunum er talað um formlega menntun sem skólakerfið sinnir og óformlega menntun sem byggist á reynslu og þekkingu sem einstaklingar afla sér í skóla lífsins, í starfi, tómstundum eða einkalífi. Þá má í auknum mæli finna margskonar dæmi um hálf-formlega menntun, t.d. félagsmiðstöðvar og frístundaheimili, þar sem börn og ungmenni fá leiðsögn og hvatningu til að virkja hæfileika sína, vaxa og þroskast sem manneskjur. Lykillinn að því að renna enn styrkari stoðum undir menntakerfið okkar er að rækta þessa heildstæðu sýn á menntun í verki. Það er ekki nóg að styðja við faglegt starf innan skóla heldur er einnig þýðingarmikið að horfa markvisst á það sem gerist utan skólans. Gera verður einstaklingum kleift að nýta persónulega þekkingu sína og reynslu úr leik og starfi og styrkja á þann hátt bæði kennara og nemendur til góðra verka.

PISA og hinar aðkallandi spurningar

Frammistaða 15 ára unglinga í hinni alþjóðlegu PISA-könnun kveikti miklar umræður í byrjun desember síðastliðnum, en þar sýndu niðurstöður að lesskilningi íslenskra ungmenna hefur hrakað. Bent hefur verið á ýmis atriði, ekki síst stöðu íslenskunnar sem virðist veikjast. Einnig er réttilega bent á að frammistaða ólíkra nemendahópa er mjög misjöfn og að PISA-könnunin mælir frammistöðu á afmörkuðum verkefnum og námsþáttum, ekki daglegt skólastarf. Þá má ekki gleyma styrkleikum íslenskra skóla sem felast meðal annars í skapandi og fjölbreyttu starfi þar sem góð samskipti, velferð og virk þátttaka allra eru grunngildi. Öll viljum við að íslenskt skólakerfi sé framúrskarandi og einkennist af jöfnuði. Rannsóknir sýna að orðaforði er lykill að betri lesskilningi og bættum námsárangri. Þess vegna er brýnt að spyrja hvernig við aukum best við orðaforða barnanna okkar og hjálpum þeim öllum að þekkja hugtök og hugmyndir, að skilja heiminn? Hvernig hjálpum við þeim að hugsa sjálfstætt, greina á milli ólíkra sjónarhorna, eiga í virkum rökræðum og komast að málefnalegri niðurstöðu? Hvernig styðjum við árangur og þroska allra barna, óháð kyni, búsetu og félagslegri stöðu?

Leitum svara sem víðast

Margir brenna fyrir því að varpa ljósi á þessar spurningar, ekki síst rannsakendur á sviði menntavísinda. Það eru ekki til einhlít svör en það eru til margar vísbendingar og ýmis góð svör. Umfangsmikil rannsókn á íslenskukennslu í grunn- og framhaldsskólum leiddi til dæmis í ljós að almennt gangi fremur illa að vekja áhuga nemenda á íslenskunáminu og veruleg ástæða sé til að endurskoða stefnu um íslenskukennslu og framkvæmd hennar. Þetta er mikilvægt að hafa í huga nú þegar ráðgert er að fjölga kennslustundum í íslensku. Nýlegar rannsóknir sýna að íslensk ungmenni hreyfa sig mun minna en áður fyrr og svefntími þeirra er alla jafna mun skemmri en ráðlagt er. Þetta eru sannarlega þættir sem geta haft áhrif á frammistöðu í námi. Menntarannsóknir verða því að beinast að sem flestum þáttum í lífi ungs fólks, bæði að hinu formlega menntakerfi, en einnig að frístundastarfinu, að lífsháttum, samskiptum og þeim viðmiðum og félagslegu öflum sem ríkja í samfélaginu hverju sinni. Það er vel kunn staðreynd að til þess að nám eigi sér stað þarf að virkja áhuga nemenda, vekja þekkingarlöngunina og glæða hana, viljann til að skilja, gera betur og ná árangri. Nám er bæði formlegt og meðvitað, en það er ávallt á einhvern hátt líka persónulegt og bundið aðstæðum.

Lifandi samspil og hagnýting rannsókna

Þekking á sviði menntunar er þannig bæði vísindaleg og greinandi, en einnig persónuleg og stundum dulin. Þess vegna skiptir miklu að raddir barna og ungmenna heyrist mjög skýrt, bæði í daglegu skóla- og frístundastarfi og í menntarannsóknum. Það er jákvætt að rannsóknum sem draga fram reynslu barna af skóla- og frístundastarfi hefur fjölgað verulega. Þess vegna er líka lykilatriði að kennarar og annað fagfólk á sviði menntunar séu aðilar að rannsóknum og byggi upp samstarf við fræðimenn og rannsakendur. Skapa þarf stöðugt og lifandi flæði hugmynda, rannsókna og nýsköpunar á milli allra þessara aðila. Hér á landi hefur tekist að byggja upp þverfaglegar menntarannsóknir og til marks um grósku þeirra má nefna að Háskóli Íslands komst nýlega á lista yfir bestu háskóla heims á sviði menntavísinda. Þessu ber að fagna. Það vantar þó mun virkara samspil á milli þeirra sem starfa á vettvangi og fræðanna, einskonar menntamiðju þar sem hagnýting rannsókna og þróun nýrra leiða í skóla- og frístundastarfi verða sameiginleg verkefni allra hagsmunaaðila. Stjórnvöld, háskólar, sveitarfélög og fagfélög verða að sameinast um slíka starfsemi með öllum tiltækum ráðum.

Menntun er breytingarafl

Menntun er margslungið samfélagslegt og siðferðilegt viðfangsefni okkar allra. Það er ekki tæknilegt verkefni sem hægt er að leysa með einföldum útfærslum. Þekktur fræðimaður á sviði menntavísinda, Gert Biesta, færir fyrir því rök að leggja beri áherslu á menntun sem hvílir á traustum gildum (e. value based education) – að menntun hafi siðferðilegt inntak með sterkar rætur í félagslegum veruleika. Menntun er breytingarafl, í henni felast hugsjónir og draumar þjóða og einstaklinga sem leysa úr læðingi afl byggt á þekkingu. Gagnrýnin, málefnaleg og upplýst umræða er hornsteinn menntunar og menntarannsóknir eru einn af grunnþáttunum í þeirri vegferð að styrkja íslenskt samfélag og hlutverk þess í alþjóðasamfélaginu. Treystum kennurum og öðru fagfólki á sviði menntunar til að leiða áframhaldandi uppbyggingu menntakerfisins, en við skulum öll vera með í þeirri vegferð. Hlustum á raddir unga fólksins og barnanna sem vilja móta nýja framtíð. Megi komandi ár verða okkur öllum farsælt. Ég óska þess að árið 2020 verði sannkallað menntaár.