Frá degi til dags

Frá degi til dags: Skugga-Vigga skundar hjá

Skugga-Vigga skundar hjá

Þótt grasið hafi verið reykt í áramótaskaupinu er Dagur B. Eggertsson ekki kominn í öruggt skjól frá fokdýrum braggabrandaranum og Vigdís Hauksdóttir boðar fjörugan fimmtudag í borgarráði: „Heyrði ég rétt – Dagur ætlar ekki að víkja úr nefndinni sem á að skoða hann sjálfan og betrumbæta hans eigin vinnubrögð,“ skrifaði Vigdís á Facebook í gær og bætti við að borgarstjóri geri „sér engan veginn grein fyrir alvarleika málsins!!!“ Og stríðshanskanum var svo kastað eina ferðina enn: „Braggamálið verður á dagskrá borgarráðs á fimmudaginn – það verður fjör.“

Djókað úti í móa

Tvær aðsendar greinar í Morgunblaðinu á laugardaginn staðfesta að skopskyn ritstjórans er nokkuð óbrjálað þótt honum hafi ekki fundist skaupið fyndið. Hallur Hallsson fór með himinskautum í vörn fyrir vestræna siðmenningu þegar hann tefldi fram þeim djúpvitra leiðtoga Donald Trump gegn George Soros og glóbalistahyski hans. Skaupgagnrýni héraðsdómarans Arnars Þórs Jónssonar var síðan enn fyndnari, ekki síst sú niðurstaða hans að enginn munur sé á fréttum og gríni hjá RÚV þannig að höfundar skaupsins ættu helst að djóka í samræmi við siðareglur blaðamanna. Góður brandari sem þó er aðeins hægt að hlæja einu sinni að.

thorarinn@frettabladid.is

Auglýsing
Auglýsing