Frá degi til dags

Frá degi til dags: Ný sýn

Ný sýn

Áramótaávarp forsetans féll í nokkuð frjóan jarðveg á Facebook. Björn Þorláksson, upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar, sagði það „fullt af skynsemi, speki og mennsku“ ólíkt því sem hann kallar „sjálflæga staglið“ í forvera Guðna. Þá þakkaði Sirrý Arnardóttir forsetanum fyrir „gott ávarp og manneskjulega sýn á lífið“. Blaðamaðurinn Eiríkur Jónsson er gjarn á að koma auga á fréttina í smáatriðunum og sló upp á vef sínum að forsetinn hafi í ávarpinu frumsýnt ný gleraugu. „Ekki náðist í forsetann við vinnslu fréttarinnar til að spyrja hvar hann hefði keypt þau, hver væri styrkleikinn í glerjum og hvert væri merkið en þau klæða hann vel.“

Nýtt upphaf

Að loknum annálum og áramótaskaupinu hlýtur Klaustursþingmönnunum sex að vera nokkuð létt enda erfiður og grýttur kafli að baki. Ólafur Ísleifsson, nú sjálfstæður þingmaður, horfir í það minnsta bjartsýnn fram á veg í áramótakveðju á Facebook þar sem hann segir: „Nýtt ár er runnið upp með væntingum sínum og fyrirheitum. Óska ykkur öllum kæru vinir farsældar á nýju ári um leið og ég þakka ánægjuleg samskipti á því liðna.“ Hugljúf kveðja frá dagfarsprúða hagfræðingnum sem fékk heldur betur að kenna á því hvar Sigmundur Davíð keypti ölið.

thorarinn@frettabladid.is

Auglýsing
Auglýsing