Frá degi til dags

Frá degi til dags: Engin tímamót biskups

Engin tímamót biskups

Á þeim tímamótum er nýtt ár gengur í garð flytja helstu leiðtogar landsins ávörp sín.

Frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup yfir Íslandi, er einn þessara helstu leiðtoga okkar og flutti nýárspredikun sína í gær. Þar gerði hún að umtalsefni sínu að áramótin væru í sjálfu sér engin tímamót. Reyndi hún þannig að gera sem minnst úr hátíðarhöldum okkar almúgans.

„Það eina sem breytist er að við þurfum að venja okkur á að skrifa nýtt ártal,“ sagði hinn trúarlegi foringi kirkjunnar manna á fyrsta degi nýs árs.

Fólk á flótta

Þegar rýnt er í ávörpin þrjú; það er biskups, forseta og forsætisráðherra, kemur oftar en ekki í ljós að boðskapur þeirra er í mörgum tilfellum sá sami eða líkindi með þeim.

Við eigum að vera betri manneskjur; hjálpa þeim sem eru hjálparþurfi og huga að þeim sem minna mega sín, jafnt í okkar þjóðfélagi sem utan landsteinanna.

Hins vegar er afar áhugavert að í þessum þremur ávörpum minnast bæði forseti og biskup á stöðu fólks á flótta og við hvaða aðstæður það fólk býr, fjarri stríðshrjáðum heimkynnum sínum. Forsætisráðherra, minnist hvorki á stríð, hælisleitendur né flóttamenn.

Auglýsing
Auglýsing