Langtímaatvinnuleysi er böl. Ástand sem brýtur niður sjálfsmynd fólks og gerir það háð öðrum um framfærslu sína. Úr gögnum Vinnumálastofnunar má lesa að um þessar mundir fullnýta um það bil 100 manns rétt sinn til atvinnuleysisbóta í hverjum mánuði.

Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir að þannig verði það fram á mitt næsta ár. Mörg þeirra sem fullnýta réttinn eiga þann eina kost í stöðunni að sækja um fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélagi, önnur fara á framfæri skyldmenna sinna og/eða leita til hjálparstofnana. Þessi hópur mun því miður stækka jafnt og þétt á næstunni verði ekkert að gert.

Við þessar aðstæður hlýtur að koma til álita að lengja tímabil atvinnuleysisbóta, til dæmis um 6 mánuði eða úr 30 í 36 mánuði, allavega tímabundið. Vonir hafa glæðst um að bóluefni gegn COVID-19 verði nothæft á nýju ári og því ástæða til að ætla að tökum verði náð á farsóttinni. Í því ljósi er tímabundin lenging atvinnuleysisbótatímabilsins skynsamleg aðgerð, sem getur forðað fólki á vinnumarkaði frá algjörum tekjumissi með tilheyrandi neikvæðum afleiðingum fyrir fjölskyldur og samfélag.

Það verður að hækka þakið!

Tímabil tekjutengingar atvinnuleysisbóta hefur nú verið lengt úr þremur í sex mánuði í samræmi við kröfur heildarsamtaka launafólks. BHM fagnar þessu en bendir um leið á nauðsyn þess að hækka verulega þak tekjutengingarinnar sem nú stendur í rúmlega 456 þúsund krónum. Með hækkun þaksins er komið í veg fyrir tekjuhrap þeirra sem lenda í tímabundnu atvinnuleysi vegna faraldursins en munu eiga góða möguleika á að fá vinnu þegar landið tekur að rísa.

Sem betur fer bendir ýmislegt til þess að þessari erfiðu kreppu muni slota á næsta ári. Búast má við hægum efnahagsbata og minnkandi atvinnuleysi á seinni hluta ársins 2021. Það réttlætir tímabundnar aðgerðir eins og þær sem hér hafa verið nefndar.

Höfundur er formaður BHM.