Zonta International eru alþjóðleg samtök sem vinna að bættri stöðu kvenna og jafnrétti. Samtökin telja yfir 29.000 meðlimi í 63 löndum. Zontameðlimir bjóða fram hæfni sína og tíma til að styðja við staðbundin verkefni á landsvísu og alþjóðleg þjónustuverkefni, auk þess að veita námsstyrki. Á Íslandi eru sex Zontaklúbbar starfandi og félagar eru um 160.

Markmið Zonta er að bæta stöðu stúlkna og kvenna um allan heim. Zontahreyfingin er aðili að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um jafnrétti og valdeflingu stúlkna og kvenna, auk Pekingsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þar er meðal annars kveðið á um að útrýma skuli ofbeldi gagnvart konum, þar sem ofbeldi standi í veginum fyrir jafnrétti, þróun og friði – og geri oft mannréttindi og grundvallarfrelsi kvenna að engu. Enn er langt í land að markmiðum hafi verið náð.

Verkefni klúbbanna taka mið af grunnhugsun Zonta um að styðja konur til betra lífs og efla þær í víðum skilningi.

Af verkefnum á heimaslóð má nefna ýmiss konar stuðning við stofnanir og þjónustu sem sinna þolendum ofbeldis og baráttu gegn kynbundnu ofbeldi, auk verkefna sem styðja við aðlögun erlendra kvenna, verkefni sem styðja við menntun kvenna og efnalitlar einstæðar mæður.

Meginverkefni íslensku klúbbanna á afmælisárinu eru tvö. Alþjóðlega verkefnið er að hindra hjónabönd stúlkubarna en íslenska verkefnið er að færa Húsbyggingasjóði Kvennaathvarfsins peningagjöf.

Er þörf á stuðningi og baráttu gegn ofbeldi á Íslandi og í heiminum? Samkvæmt tölum frá UN Women eru konur og stúlkur 71% allra þolenda mansals í heiminum auk þess sem þriðja hver kona er beitt kynbundu ofbeldi.

Á Íslandi búa um 80.000 börn og verða um 13.000 þeirra fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára aldur, samkvæmt nýjum tölum frá Rannsókn og greiningu. Hérlendis hefur ein af hverjum þremur konum orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi í starfi eða námi, samkvæmt fyrstu niðurstöðum rannsóknarinnar Áfallasögur kvenna. Þessi staða er algjörlega óásættanleg.

Afmælisfundur verður haldinn á morgun þann 8. nóvember í Veröld – húsi Vigdísar Finnbogadóttur og á Borgum við Háskólann á Akureyri kl. 15.30. Allir velkomnir.