Fréttablaðið greindi í gær frá miklum harmi í röðum starfsfólks, eftir þrjú dauðsföll í sundlaugum síðustu þrjá mánuði.
Fyrir rúmum áratug varð mikil umræða um öryggi í sundlaugum eftir að barn lést vegna drukknunar í innilaug. Nokkru fyrr umbyltist þjóðarhjartað af sársauka þegar drengur drukknaði eftir skólasund.
Við sem munum tímana tvenna vitum að það hefur oft verið hættulegt að vera til. Ekki síst þegar á að vera gaman.
Rannsókn sem gerð var árið 1994 á drukknunartíðni, sýndi fram á að áratuginn á undan höfðu 13 íslensk börn drukknað og þrjú hlotið varanlegan heilaskaða. Þorri slysanna varð í leik, næstum helmingur á opinberum sundstöðum. Þegar ég sagði yngri samstarfsmönnum mínum á Fréttablaðinu frá þessari tölfræði í gær, greip fólk andann á lofti.
Í kjölfar banaslysanna verða nú nýjar myndavélar settar upp við alla vaktturna í sundlaugum í Reykjavík. Sú ráðstöfun verður á kostnað persónufrelsis. Því frelsi og ábyrgð takast oft á.
Í sveitinni þar sem ég ólst upp sem barn var aldrei róið til fiskjar í björgunarvesti. Ekki vegna þess að vesti væru ekki til, heldur var fyrst og fremst um kúltúr að ræða, vestin þóttu heftandi.
Og þegar löggan stoppaði frænda minn akandi á þjóðveginum árið 1975 og spurði um ökuskírteini, svaraði frændinn: „Það er ekkert með ökuskírteini að gera upp til sveita!“
Við erum frumbyggjar sem höfum vanist að fara okkar fram. Við höfum kosið persónufrelsi að því marki sem hefur rúmast innan samfélagsins, fremur en höft, boð og bönn. Við höfum vanist að taka áhættu, enda fátt um lífsbjargir án áhættu. Nægir sem rök í því samhengi að nefna ferðalög í brjáluðu veðri og sjósókn til forna.
Nú leggur hin harðduglega þjóð okkar allt kapp á að uppræta banaslys. Jafnvel þótt það kosti okkur svolítið frelsi. Það er önnur tilfinning að sigla á bát og leggja net í blíðviðri í léttum sumarklæðnaði en öryggisfatnaði frá a-ö. En við látum okkur hafa það. Vegna þess að við höfum skyldur við annað fólk.
Ég er samt enn fullur aðdáunar yfir frænda mínum sem fannst löggan svo vitlaus þegar spurt var um ökuskírteini að það vældi í dekkjunum undir brúnum landrovernum þegar hann ók aftur af stað og skildi laganna verði eftir tómhenta. En ég veit líka að ég þarf að tileinka mér nýja hugsun og láta glannaskapinn lönd og leið.