Auglýsing
Auglýsing
Fastir pennar
Davíð Stefánsson
Laugardagur 25. janúar 2020
Kl. 08.20

Í bókinni „The New Fish Wave“, sem nýverið kom út í Bandaríkjunum, lýsir Þór Sigfússon, stofnandi Sjávarklasans, hvernig Íslendingar hafa byggt upp fjölbreytta atvinnustarfsemi í kringum íslenskan sjávarútveg og hvernig þeim hefur tekist að búa til fjölmörg haftengd nýsköpunarfyrirtæki sem eru á heimsmælikvarða.

Talið er að árlega sé um 10 milljónum tonna af fiski hent á heimsvísu. Stór hluti þess eru verðmæt prótein. Íslendingar nýta mun meira af hverjum veiddum fiski en aðrar þjóðir. Hér nýtum við tæplega 80 prósent af hverjum fiski en algengt er að aðrir nýti um helming þar sem nær öllu nema fiskflakinu er hent. Við Íslendingar getum boðið tækniþekkingu og ráðgjöf í veiðum og vinnslu sem getur leitt til mun minni sóunar og betri umgengni um náttúruauðlindir á heimsvísu. Glæsileg fyrirtæki á borð við Marel, Hampiðjuna, Skagann3X, Völku og Frost, eru dæmi um fyrirtæki sem eru þekkt á heimsvísu á sínu sviði og geta leitt þá byltingu í veiðum og vinnslu sem Íslendingar geta haft forystu um.

Í fullvinnslu hliðarafurða fisks eru tæplega 40 fyrirtæki starfandi hérlendis. Lýsi er rótgróið og þekkt á þessu sviði en fjölmörg framsækin fyrirtæki hafa komið fram hérlendis á síðustu árum. Nefna má fyrirtækin Zymetech, Iceprotein, Marine Collagen, Primex, Codland, Genis og Kerecis í þessu sambandi. Hvert á sínu sviði eru þau að ná að beisla þekkingu til að nýta hliðarafurðir sjávarafurða og skapa með því mikil verðmæti og áhugaverð störf. Árangur þeirra á að verða hvatning til enn fleiri sigra á þessu sviði.

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis, sagði í viðtali í vikunni við Markaðinn að fyrirtæki hans, sem þróað hefur leið til að affruma þorskroð til sárameðhöndlunar, geti skapað hátt í hálfrar milljónar króna verðmæti úr einum þorski!

En kannski er stærsta verkefnið að við gerum okkur sjálf grein fyrir þeim tækifærum, sem við búum við, og að ungir Íslendingar séu hvattir til að hasla sér völl í nýsköpun þekkingar innan hins bláa hagkerfis. Í ólgandi hafsjó eru færi framtíðarinnar.

Árangur Íslendinga hefur vakið athygli víða. Auk áhuga á vörum framsækinna tæknifyrirtækja er mikill áhugi erlendis fyrir samstarfi við innlendar háskóla- og rannsóknastofnanir og frumkvöðla- og nýsköpunarstarf eins og í Sjávarklasanum.

Við ættum að horfa okkur nær þegar við metum færi framtíðarinnar. Í bakgarðinum er gríðarstór landhelgi með mikla möguleika. Hið bláa hagkerfi getur vaxið ört á næstu árum en gleymum ekki að langflest þeirra fyrirtækja sem hér hafa verið nefnd eru ávöxtur mikillar rannsóknar- og þróunarstarfsemi sem oft hefur orðið til í samstarfi frumkvöðla, mennta- og rannsóknarstofnana.

Til áframhaldandi ævintýra hins bláa hagkerfis verður að treysta enn frekar rannsóknar- og samkeppnissjóði, efla tækni- og háskólamenntun og örva frumkvöðlastarf. Því til viðbótar verður að tryggja samkeppnishæft rekstrarumhverfi fyrirtækja með því að stilla skattheimtu og eftirliti í hóf.

En kannski er stærsta verkefnið að við gerum okkur sjálf grein fyrir þeim tækifærum, sem við búum við, og að ungir Íslendingar séu hvattir til að hasla sér völl í nýsköpun þekkingar innan hins bláa hagkerfis. Í ólgandi hafsjó eru færi framtíðarinnar.

Auglýsing
Bakþankar

Norðmenn

Árni Helgason
Föstudagur 24. janúar 2020
Kl. 06.47

Rothögg handboltalandsliðsins gegn Norðmönnum var umhugsunarefni. Leikurinn endaði með þriggja marka tapi, en samt unnum við síðustu 50 mínútur leiksins með fjögurra marka mun.

Byrjunin sló okkur út af laginu. Norðmenn nýttu sér þar ákveðinn menningarmun á þjóðunum. Önnur þjóðin samanstendur af vel úthvíldum A-týpum en hin er upp til hópa vertíðarfólk með síþreytu.

Norðmenn eru allt sem við erum ekki. Þeir smyrja nesti og mæta snemma með kaffi í brúsa. Latasti maðurinn í Noregi vaknar um sjöleytið á morgnana við háðsglósur annarra Norðmanna fyrir að sofa svona lengi. Þeir hafa þá verið á fótum í allavega þrjá tíma, farið á gönguskíðum í vinnuna og rætt hvenær skila eigi skattframtalinu. Öllum verkefnum er tekið af gagnrýnislausri jákvæðni sem er okkur afskaplega framandi. Þeir vinna jafnt og þétt, taka hæfilega mikið að sér og ætla sér aldrei um of.

Þessu er fullkomlega öfugt farið hjá okkur. Um svipað leyti og latasti Norðmaðurinn drífur sig fram úr eru Íslendingar almennt að snúsa auka kortér og undirbúa sig andlega fyrir að moka bílinn út úr gulri veðurviðvörun. Við erum kulnuð með kolvitlausa klukku, svefnvana eftir að hafa fundað um fjárhagsvandræði blakdeildar íþróttafélagsins langt fram yfir miðnætti kvöldið áður. Við erum lengi af stað og þögul sem gröfin þar til allavega tveir kaffibollar eru komnir niður. En þá hrekkur vélin í gang og afkastar langt umfram það sem eðlilegt er enda erum við drekkhlaðin verkefnum, tökum alltof mikið að okkur og klárum svo allar orkubirgðir. Endurtökum svo leikinn næsta dag.

Norskt jafnvægi hlýtur að vera lykillinn að næsta ævintýri handboltalandsliðsins.

Auglýsing
Auglýsing Loka (X)