Fastir pennar

Fórnir fyrir fisk

Sif Sigmarsdóttir
Föstudagur 29. apríl 2022
Kl. 20.32

Maí 1949. Tíu ár eru liðin frá því að spænsku borgarastyrjöldinni lauk með ósigri lýðveldissinna og valdatöku einræðisherrans Franco. Thor Thors, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, er staddur á allsherjarþingi samtakanna í smábænum Lake Success í Bandaríkjunum.

Á dagskrá fundarins er hitamál sem gengur undir nafninu „Spánar-spurningin“. Spánn hafði ekki fengið aðild að Sameinuðu þjóðunum við stofnun þeirra fjórum árum fyrr vegna stjórnmálaástandsins þar í landi. Árið 1946 höfðu aðildarríki jafnframt samþykkt að slíta stjórnmálasambandi við Spán. En nú liggur fyrir tillaga um að útskúfun Spánar verði aflétt.

Vestrænum ríkjum blöskrar tillagan. „Slíkt skref hefur að engu þá staðreynd að Franco komst til valda á Spáni með aðstoð Musso­linis og Hitlers,“ skrifar Eleanor Roosevelt, fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna, í vinsælum dagblaðadálki sínum. Hún varar við því að „fasisti gærdagsins fái í dag að virðast jafnoki annarra þjóðarleiðtoga.“

Tillagan hlýtur ekki brautargengi. Thor Thors og íslenska sendinefndin virðast hins vegar ekki deila áhyggjum Eleanor Roosevelt og bandalagsþjóða. Ísland greiðir atkvæði með tillögunni og verður fyrst Evrópuþjóða utan Grikklands og Tyrklands til að ljá einræðisríkinu Spáni stuðning.

Hvað olli því að íslensk stjórnvöld ákváðu að fylkja sér að baki alræmdum harðstjóra sem gjarnan var kallaður „síðasti eftirlifandi fasíski einræðisherrann“?

Í nýlegri grein, „Saltfiskur, vín og skemmdir ávextir“, eftir sagnfræðinginn Stefán Svavarsson, er ástæðan rakin. Rannsóknir Stefáns sýna að íslensk stjórnvöld voru undir miklum þrýstingi íslenskra útgerðarfélaga og fiskútflytjenda sem kröfðust aðstoðar við að koma á viðskiptum við Spán. Töldu menn að stuðningur við Franco innan Sameinuðu þjóðanna myndi liðka fyrir útflutningi á saltfiski.

Siðferðisleg ábyrgð

Íslenskt athafnafólk fékk ákúrur úr óvæntri átt í vikunni. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, gagnrýndi íslensk fyrirtæki sem mörg stunda enn viðskipti við Rússland þrátt fyrir innrásina í Úkraínu. Ólafur sagði Íslendingum bera að „styðja við bakið á Úkraínumönnum“ og sýna siðferðislega ábyrgð á við aðrar lýðræðisþjóðir sem við stöndum langt að baki.

„Sagan endurtekur sig kannski ekki en hún rímar,“ er haft eftir rithöfundinum Mark Twain. Íslenskt viðskiptasiðferði virðist lítið hafa styrkst frá því að fiskiðnaðurinn taldi íslenska ráðamenn á að draga taum Franco – flest fyrirtækjanna sem enn stunda viðskipti við Rússland flytja út búnað fyrir fiskvinnslur og útgerðir. Svo virðist einnig sem vinnubrögð ráðamanna hafi lítið breyst.

Íslensk stjórnvöld voru nýverið sökuð um að hafa unnið gegn því að Evrópusambandið beitti Aleksander Mosjenskíj, kjörræðismann Íslands í Hvíta-Rússlandi, viðskiptaþvingunum. Mosjenskíj er náinn forseta landsins Alexander Lúkasjenko, sem gjarnan er kallaður „síðasti einræðisherra Evrópu“ og er helsti bandamaður Pútíns Rússlandsforseta. Það vill svo til að fyrirtæki kjörræðismannsins flytur inn mikið af fiski frá Íslandi en grunur leikur á að þaðan sé fiskurinn fluttur bakdyramegin til Rússlands.

Árið 1949 gerðu Íslendingar vöruskiptasamning við Spán. Hann olli vonbrigðum. Ekki mátti flytja saltfisk til Spánar án þess að spænskar vörur yrðu fluttar til Íslands á móti. Spænsku vörurnar þóttu dýrar og lakar að gæðum; ávextir voru skemmdir og vefnaðarvörur rifnuðu auðveldlega. Íslenskir ráðamenn og fiskútflytjendur hvöttu almenning og heildsala engu að síður til að kaupa sem mest frá Spáni.

Úldnir ávextir. Líf úkraínsks almennings. Samviska þjóðar. Eru engin takmörk fyrir því sem má fórna fyrir fisk?

Bakþankar

Gúglum bara

Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir
Föstudagur 29. apríl 2022
Kl. 05.00

Það er kannski ekki augljóst hvað örbylgjuofn, gervisæta, kartöfluflögur, gangráður og frostpinnar eiga sameiginlegt. Enda langsótt. Staðreyndin er þó sú að allt varð þetta til, fundið upp, fyrir slysni. Við, þetta einkennilega mannkyn, höfum náð að skapa ótrúlegt magn þekkingar, hluta og aðferða á þeim tíma sem við höfum ráfað um jörðina. Stundum óvart en oftar með markvissum hætti.

Líklega er tungumálið merkilegasta uppfinning mannkynsins, ásamt getu okkar til að hugsa og tjá það sem flókið. Einar Benediktsson sagði að orð væri á Íslandi til um allt sem er hugsað á jörðu. En þrátt fyrir áratugalanga auglýsingaherferð Mjólkursamsölunnar um að á íslensku megi alltaf finna svar þá er ekkert víst að Google finni svar við öllum okkar spurningum, á íslensku.

Vegir heila mannsins eru óútreiknanlegir en gervigreindin sem er innblásin af því hvernig heilinn starfar er ekki alveg jafn óútreiknanleg. Hún hefur getu til að framkvæma flókna útreikninga, taka ákvarðanir og framkvæma ýmislegt sem áður krafðist greindar mannsins. Þannig hefur gervigreind burði til að hjálpa okkur að finna svör við öllum heimsins spurningum, á íslensku. Hún mun geta þýtt á milli allra tungumála heimsins og fært okkur, þetta gallaða mannkyn, enn nær hvert öðru. Gervigreind mun líka gera okkur kleift að tryggja framtíð tungumála eins og íslensku, sem fáir tala.

Eins hrifin og ég er af örbylgjupoppi og frostpinnum þá er ekki hægt að treysta því að tilvera lítilla tungumála í stafrænum heimi verði tryggð með sama hætti, óvart. Það er á okkar valdi að tryggja að auglýsingar Mjólkursamsölunnar haldi sannleiksgildi sínu.

Vikan
Auglýsing Loka (X)