Auglýsing
Auglýsing
Fastir pennar
Hörður Ægisson
Föstudagur 28. febrúar 2020
Kl. 06.35

Spurningin er ekki lengur hvort heldur hve mikil áhrif kórónaveirufaraldursins verða á heimshagkerfið. Eftir að hafa fyrst stórlega vanmetið þau hafa viðbrögð fjárfesta á fjármálamörkuðum beggja vegna Atlantshafs verið harkaleg í vikunni. Hlutabréfavísitölur hafa fallið eins og steinn og fjármagnið leitar nú í skjól öruggari eigna á borð við bandarísk ríkisskuldabréf og gull. Íslenski markaðurinn, sem óttast að veiran sé að breiðast út um Evrópu með tilheyrandi höggi á ferðaþjónustuna, hefur ekki farið varhluta af þessari þróun – og sumpart hafa viðbrögðin verið enn ýktari en á erlendum mörkuðum. Úrvalsvísitalan hefur lækkað um níu prósent á aðeins fjórum dögum. Hlutabréfaverð Icelandair hefur tekið langmestu dýfuna, eða um nærri 30 prósent, og markaðsvirði flugfélagsins því skroppið saman um 14 milljarða.

Fyrri smitfaraldrar virðast hafa lítið forspárgildi um þróun mála. Staðfest smit af völdum kórónaveirunnar á heimsvísu, en tilfellum utan Kína fjölgar nú ört, eru orðin fleiri en 80 þúsund talsins og dauðsföll nálgast þrjú þúsund. Til samanburðar greindust um átta þúsund manns með SARS-veiruna, sem átti einnig upptök sín í Kína og olli dauða um 800 manns, á árunum 2002 til 2003. SARS-veiran dró þá niður hagvöxt í Kína um eitt prósentustig en áhrifin í öðrum helstu hagkerfum heimsins voru hverfandi. Nú er staðan allt önnur. Kínverska hagkerfið stendur undir um 17 prósentum heimsframleiðslunnar, borið saman við aðeins fjögur prósent 2003, og er miðpunkturinn í helstu framleiðslukeðjum alþjóðlegra fyrirtækja. Ef það hriktir í þeim hefur það alvarleg og keðjuverkandi áhrif um allan heim.

Helstu áhyggjurnar lúta að ferðaþjónustunni þar sem hætta er á að afbókunum taki að fjölga og ferðamönnum fækki eftir því sem veiran breiðist út

Fyrir íslenska þjóðarbúið, sem er í miðri niðursveiflu, kemur útbreiðsla veirunnar á óheppilegum tíma. Sem lítið opið hagkerfi er Ísland afar háð alþjóðaviðskiptum og því munum við finna vel fyrir því ef það fer að hægjast á vexti í okkar helstu viðskiptalöndum. Tímabundið hökt í utanríkisviðskiptum, eins og fram kom í umfjöllun Markaðarins í vikunni, verður hins vegar smáræði miðað við samdráttinn í eftirspurn sem raungerist þegar fólk fer að halda að sér höndum í neyslu og ferðalögum samtímis því sem veiran breiðist út til fleiri landa. Bjartsýni neytenda mun dragast saman og þá um leið fjárfestingar fyrirtækja. Væntingar um skjóta efnahagslega viðspyrnu, byggðar á misráðinni bjartsýni um að útbreiðsla veirunnar væri í rénun, eru ekki að ganga eftir og peningamálayfirvöld, einkum í Evrópu þar sem vextirnir eru við núllið, eru í afar aðþrengdri stöðu.

Aðeins er talið tímaspursmál hvenær veiran berst hingað til lands. Við það munu efnahagslegu áhrifin verða meiri og beinni, eins og við höfum séð í öðrum löndum. Helstu áhyggjurnar lúta að ferðaþjónustunni, sem stendur undir um 40 prósentum af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins, þar sem hætta er á að afbókunum taki að fjölga og ferðamönnum fækki eftir því sem veiran breiðist út. Flest ferðaþjónustufyrirtæki, sem hafa þurft að takast á við hvert áfallið á fætur öðru, eru að heyja varnarbaráttu og mega því illa við frekari skakkaföllum. Jákvæðu fréttirnar eru að stjórnvöld ráða yfir fjölmörgum vopnum í vopnabúri sínu, meðal annars lækkun vaxta ásamt öðrum aðgerðum til að örva hagkerfið, til að bregðast við þessari dökku stöðu sem er að teiknast upp. Það er ekki lengur spurning um val heldur nauðsyn.

Auglýsing
Bakþankar

Smit

Þórarinn Þórarinsson
Föstudagur 28. febrúar 2020
Kl. 06.43

Allt sem ég veit um lífið og tilveruna hef ég úr kvikmyndum og leita frekar í þann viskubrunn heldur en röklausar skyndilausnir pólitíkusa þegar þessi árans smitvá býr í lofti og ferðast hratt milli landa.

Sennilega þess vegna hefur atriði úr Tucker: The Man and His Dream eftir Francis Ford Coppola sótt á mig síðustu daga. Þar segir frá Preston Tucker, stórhuga uppfinningamanni, sem reyndi skömmu eftir seinna stríð að markaðssetja snilldarhugmynd sína um krúttlegan þriggja hjóla bíl.

Hann fór lóðbeint á hausinn með Tuckerinn sinn. Aldraður endurskoðandi Tuckers deildi vonbrigðunum með honum og reyndi að sleikja sárin með upprifjun á gömlum varnaðarorðum mömmu sinnar. Hún hafði bannað honum að fara of nálægt fólki vegna þess að hann gæti fengið af því sýkla. Misheyrn þar sem enska orðið „germs“ varð „dreams“ varð til þess að upp frá því forðaðist hann fólk sem gæti smitað hann af draumum sínum. Ekki algalið þar sem draumar, hugmyndir, langanir og jafnvel hættulegar stjórnmálaskoðanir eru jafn bráðsmitandi og kvef, ælupestir og kórónaveikin.

Hugmyndir um að loka landinu og breyta Egilshöll í smitfangabúðir með bíósal og keilubrautum eru því vitaskuld þvættingur sem gerir ekkert annað en magna upp ótta sem skilar sér mögulega í prósentubrotum þeirra allra hræddustu í skoðanakönnunum.

Lífið sjálft er smitsjúkdómur sem virðir engin landamæri, hvorki náttúruleg né manngerð. Ég meina, fólk mun meira að segja halda áfram að kyssast, faðmast, ríða og haldast í hendur þótt varað sé við því og mælt með sprittun.

Þetta er það sem það er og kemur hvort sem okkur líkar betur eða verr og í hversu sturlaða vörn við pökkum.

Höldum ró okkar og höldum áfram.

Auglýsing
Auglýsing Loka (X)