Fastir pennar

Þessi eini

Kolbrún Bergþórsdóttir
Fimmtudagur 22. apríl 2021
Kl. 08.15

Takmarkanir á athafnafrelsi fólks, sem staðið hafa ansi lengi, bjóða að sjálfsögðu ekki upp á að rósemi sé í hávegum höfð á öllum heimilum. Pirringur og vanstilling grípur auðveldlega um sig. Dæmi um þetta eru viðbrögðin við fréttum af því að gríðarlega aukningu COVID-tilfella megi rekja til einstaklings sem virti ekki reglur um sóttkví eftir komuna til landsins. Þeir allra æstustu kröfðust þess að nafn hans væri birt og vildu vitaskuld líka fá mynd af viðkomandi. Þannig yrði landslýð ljóst hver sökudólgurinn væri. Um leið væri hann auðmýktur opinberlega og það svo mjög að hann fengi aldrei að gleyma því að hann hefði brotið af sér.

Hér er ekki verið að bera sérstakt blak af viðkomandi einstaklingi. Brot hans hafði alvarlegar afleiðingar, sem er örugglega ekki það sem hann bjóst við. En brotið jafngildir ekki því að réttlætanlegt sé að bregðast við í máli hans eins og æsingafólkið vill að gert sé með því að draga hann fram í sviðsljósið og úthrópa sem þjóðníðing. Það er ekki beint notalegt að horfa upp á refsigleðina grassera. En refsigleði er reyndar aldrei sérlega geðþekk.

Sennilega er auðvelt að fá útrás fyrir pirring með því að hella sér sérstaklega yfir einn einstakling af þeim fjölmörgu sem ekki hafa hlýtt sóttkví. Komið hefur fram að margir þeirra sem brjóta sóttkví séu útlendingar sem hér starfa og sagt er að sá sem hlýddi ekki, með þessum skelfilega vondu afleiðingum, sé Pólverji.

Það ætti ekki að hafa farið fram hjá nokkrum manni að hér á landi fyrirfinnst hópur einstaklinga sem amast mjög út í búsetu erlends fólks hér á landi, finnur því ýmislegt til foráttu og segir það taka vinnu frá Íslendingum. Þessi hópur felur aldrei vanstillingu sína og færist allur í aukana þegar upp kemur mál eins og þetta.

Stjórnmálamenn eiga að vita af hættunni á því að andúð skapist á COVID-tímum gagnvart því fólki sem hingað kemur að utan til að vinna og er á ferðalögum milli landa. Stjórnmálamenn hafa hins vegar ekki talað af röggsemi um mikilvægi þess að sýna aðstæðum þessa fólks skilning. Það gerði hins vegar maður sem á stundum getur talað með hvössum tón. Kári Stefánsson er hrjúfur á yfirborðinu en eins og margir slíkir einstaklingar hefur hann hlýtt hjarta, þótt hann reyni yfirleitt að leyna því.

Kári sagði á dögunum: „Við höfum ekki verið nógu dugleg að byggja brú yfir til þessa pólska samfélags á Íslandi. Þannig að það sem miður fer finnst mér vera okkur að kenna. Við höfum ekki tekið almennilega á móti þessu fólki. Alla vega er ljóst að þessir Íslendingar af erlendu bergi brotnir eiga í meiri erfiðleikum við að halda sóttkvíarreglurnar heldur en aðrir. Og það þarf að finna einhverja leið til að takast á við það án þess að benda fingri á þetta fólk sérstaklega.“

Þjóðin hefur einstakt dálæti á Kára Stefánssyni og sperrir eyrun í hvert sinn sem hann talar. Hún ætti að taka alveg sérstakt mark á þessum orðum hans. Þau eru svo sönn.

Skoðun

Ákall um Parísarsáttmálann á Degi jarðar

Þegar fyrsta Jarðarráðstefna Sameinuðu þjóðanna var haldin í Stokkhólmi 1972, vöruðu vísindamenn við þeirri hættu sem stafaði af óheftum ágangi á plánetu með takmarkaðar auðlindir. Lítið hefur breyst á þeim 50 árum sem liðin eru þó svo að aldrei hafi verið brýnna að bregðast við en nú. Á hverju ári göngum við sífellt fyrr að þolmörkum sjálfbærni jarðarinnar og þar með, varanlega á náttúruauðlindir okkar.

Við erum borgarstjórar allsstaðar að úr heiminum og verðum áþreifanlega vör við afleiðingar loftslagsbreytinga og áhrif þeirra á borgirnar okkar sem hvetur okkur til að bregðast við til verndar borgarbúum og heilsu þeirra. Á hverjum degi stöndum við frammi fyrir þessum ógnum, og við stöndum saman í því að finna lausnirnar. Borgirnar okkar eru einstaklega kvikar og snjallar, og veita góða umgjörð fyrir íbúana til þess að þeir geti tileinkað sér grænan lífsstíl.

Í ár verður haldinn fjöldi alþjóðlegra viðburða sem eru mikilvægir fyrir borgirnar okkar. Þar ber hæst tvær ráðstefnur Sameinuðu þjóðanna – annars vegar er Loftslagsráðstefnan í Glasgow og svo hins vegar ráðstefna um líffræðilegan fjölbreytileika sem haldin er í Kunming í Kína. Þar verða samþykktar áþreifanlegar aðgerðir til að koma í veg fyrir að meðalhitastig jarðar hækki um meira en tvær gráður. Við skorum því í dag, á Degi jarðarinnar, á alla hagsmunaaðila að standa við skuldbindingar sínar, nú þegar fimm ár eru liðin frá undirritun Parísarsáttmálans.

Í tilefni af því að fimm ár voru frá Parísarfundinum í desember sl. undirrituðum við sérstaka Parísaryfirlýsingu þar sem við hvetjum borgir heims til samstarfs. Alls hafa 133 borgir undirritað yfirlýsinguna, sem styður verkefnið Race to Zero – eða kapphlaupið að kolefnishlutleysi – sem er það markmið sem Sameinuðu þjóðirnar setja fyrir næstu loftslagsráðstefnu. Þannig vörpum við ljósi á aðgerðir okkar til að ná kolefnishlutleysi með því að draga úr kolefnislosun á stórfelldan hátt í borgunum okkar.

Fyrir 2030 eiga ríki að hafa sett sér betri og metnaðarfyllri áætlanir um að draga úr útblæstri. Sameiginlegar skuldbindingar ríkjanna eru að verja árlega 100 milljörðum dollara til að ná því marki. Geri þau það ekki kemur það harðast niður á fátækari svæðum sem ekki hafa ráð á slíkum aðgerðum. Loftslagsaðgerðir verða því að vera hvoru tveggja sanngjarnar og stuðla að auknum jöfnuði.

Það er komið að ögurstundu. Áskorunin sem við stöndum frammi fyrir er yfirþjóðleg og viðbrögðin verða að vera þvert á þjóðir og landamæri. Ef viðbrögðin taka aðeins tillit til okkar eigin aðstæðna án alþjóðlegrar yfirsýnar, samstöðu og stuðnings, munum við aldrei ná settu marki. Það er skylda okkar að endurvekja vonir næstu kynslóða um lífvænlega framtíð þrátt fyrir kreppur, hamfarir og faraldra. Því veljum við Dag jarðar til að árétta ákall okkar til ríkisstjórna heims um að herða sig í loftslagsbaráttunni til að vernda jörðina okkar og verðmæti okkar sameiginlegu auðlinda.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, ásamt borgarstjórum Aþenu, Barcelona, Brazzaville, Bogota, Búdapest, Buenos Aires, Dakar, Dortmund, Flórens, Genfar, Glasgow, Haïfa, Helsinki, Lausanne, Liège, Lissabon, Ljubljana, Manchest­er, Mílanó, Namur, Parísar, Riga, Sao Paulo, Tókýó, Valencia og Varsjár.

Vikan
Auglýsing Loka (X)