Auglýsing
Auglýsing
Fastir pennar
Sighvatur Arnmundsson
Þriðjudagur 7. apríl 2020
Kl. 06.27

Þríeykið góða, þau Alma, Þórólfur og Víðir, biður fólk að halda sig heima nú um páskana. Það verða engar fermingarveislur, skíðaferðir eða sumarbústaðaheimsóknir. Það er mikilvægt að þessum tilmælum sé fylgt til að létta álaginu af heilbrigðiskerfinu og öðrum innviðum. Við erum væntanlega að fara að sigla inn í erfiðustu daga þessa faraldurs sem hefur fyrir löngu sett allt okkar daglega líf úr skorðum.

Stéttarfélög hafa brugðist við og dregið til baka úthlutanir í orlofshús sín um páskana og jafnvel lokað þeim þar til samkomubanni verður aflétt. Fórn okkar sem stöndum ekki í framlínu heilbrigðiskerfisins er lítil. Höldum okkur heima og forðumst allt óþarfa samneyti við aðra en heimilisfólk.

Samkomubannið og afleiðingar þess hafa dregið mjög skýrt fram hversu mikið við erum háð menningu og listum. Um páskana er tilvalið fyrir fjölskyldur að skrá sig í lestrarverkefnið Tími til að lesa sem Menntamálastofnun og mennta- og menningarmálaráðuneytið standa fyrir. Þar er markið sett hátt, setja á heimsmet í lestri í einum mánuði. Þegar þetta er skrifað hafa þátttakendur lesið í tæplega 1,4 milljón mínútur sem jafngildir tveimur árum og tæplega átta mánuðum betur.

Þetta er frábær leið til að hvetja börn til lesturs. Börn sem lesa bækur sér til ánægju öðlast betri málskilning og þau búa yfir meiri orðaforða en börn sem lesa ekki. Niðurstöður úr lesskilningshluta PISA-rannsóknarinnar minna okkur á að hér er til mikils að vinna. Foreldrar geta líka skráð sinn lestur. Við megum ekki gleyma því hve fyrirmyndir eru mikilvægar fyrir lesendur og rithöfunda framtíðarinnar.

Þá hefur tónlistarfólk verið duglegt að nýta tæknina við að streyma lifandi tónlist. Sumir halda stofutónleika heima hjá sér en aðrir troða upp á tómum tónleikastöðum. Tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður, sem er ómissandi þáttur í páskum margra landsmanna, mun meira að segja fara fram á Ísafirði þótt engir verði gestirnir. Það er gaman að sjá hversu hugmyndaríkt listafólkið okkar er á þessum skrýtnu tímum.

Við eigum að vera þakklát fyrir allt frábæra listafólkið sem auðgar líf okkar. Þegar þetta verður allt saman yfirstaðið skulum við muna eftir öllum þeim stundum sem við nýttum við lestur góðra bóka eða hlustuðum á tónlist. Við skulum líka muna eftir öllum kvikmyndunum, þáttunum og leikhúsperlunum sem við horfðum á og allri listinni sem er í kringum okkur á hverjum degi.

Auglýsing
Bakþankar

Vandlátir vínsmakkarar

Fátt held ég sé erfiðara en vera við stjórnvölinn á krísutímum eins og þeim sem nú ríkja. Það hefur svo sem aldrei verið í tísku að setja sig í spor þeirra sem háttsettir eru, en núna kemst ég ekki hjá því þegar ég sé ósofna og úttaugaða ráðherra og sérfræðinga með bauga á við undirskálar koma fram fyrir alþjóð hér á Spáni.

Annað sem getur örugglega verið alveg jafn erfitt heilbrigðri sál er það hlutskipti að vera í grátkór stjórnarandstöðunnar á slíkum tímum. Auðvitað má alltaf gagnrýna ráðamenn og sérfræðinga þá sem etja kappi við ofurafl mikið, sem ekki á sér fordæmi, en annað er að koma sér fyrir á hliðarlínunni, eins og vandlátur vínsmakkari, og finna óbragð af öllu því sem gert er. Ef gott er gert kemur það of seint og ef eitthvað skilar ekki tilætluðum árangri var það fyrirséð. Þetta er nefnilega kompaníið sem sá hrunið fyrir löngu EFTIR hrun. Sem dæmi um uppbyggilegheitin þá var formaður Lýðflokksins að hneykslast á því að forsætisráðherra hefði ekki hringt í sig í tíu daga. Vox flokkurinn skammar stjórnina fyrir að hafa leyft samkomur á kvennafrídaginn en um sama leyti hélt hann sitt flokksþing með knúsi og kjammsi.

Það er hollt að hugsa til þess á krísutímum hvernig hver og einn geti komið að sem mestu gagni. Þeir sem aðeins hafa þetta fram að færa mættu hins vegar alveg taka því rólega því eins og Ólafur pá sagði við áhöfn sína: því verr munu duga heimskra manna ráð, er þau koma fleiri saman.

Auglýsing
Auglýsing Loka (X)