Auglýsing
Frá degi til dags

Hlutdeild í hörmungum

Drjúgur hluti heimsbyggðarinnar er harmi sleginn eftir brunann í Notre Dame og múgur og margmenni keppist á samfélagsmiðlum við að tengja sig persónulega við kirkjuna og harminn mikla með myndbirtingum. Egill Helgason gerir þessa stafrænu sjálfhverfu að umtalsefni á Eyjubloggi sínu þar sem hann segir fárið vegna brunans lýsa samskiptamiðlaveruleika nútímans. „Það er auðvitað ágætt að sýna hluttekningu, en þetta gekk svolítið langt,“ skrifar Egill og heldur áfram: „Margir hafa ferðast til Parísar og eiga myndir af sér með Notre Dame í bakgrunninum. Sjáið, ég var þarna líka, einu sinni! Ég!“

Bara hús

Menningarrýnirinn Ásgeir H. Ingólfsson hugsar lengra en þau sem ruku í gömul myndaalbúm og bendir á Facebook á að „þetta er bara hús“. Hús sem milljónir hafa heimsótt í ólíkum tilgangi. „En kannski ennþá frekar vert að nefna það að þúsundir voru skattpíndir til þess að byggja þetta hús, þúsundir unnu við að byggja þetta hús, sumir dóu örugglega eða fengu ömurleg eða engin laun eða fengu bakverki sem þeir losnuðu aldrei við. Sumir hötuðu þetta hús einmitt út af því – en sumum þótti vænt um það af sömu ástæðum, allt þetta strit var þó til einhvers, bjó til eitthvað fallegt.“

Auglýsing
Fastir pennar

Barn síns tíma

Engin vísindaleg rök búa að baki kröfu yfirvalda um fjögurra vikna einangrunarvist hunda og katta í sóttkví við komu hingað til lands. Þá felst afar lítil áhætta í því að viðurkenna sérstök gæludýravegabréf, að minnsta kosti frá Bretlandi og Norður-Evrópu, þaðan sem mikill meirihluti innfluttra hunda kemur. Með upptöku slíkra vegabréfa væri hægt að gera gæludýraeigendum kleift að ferðast með dýrin sín milli landa að uppfylltum sjálfsögðum og ströngum skilyrðum um bólusetningar og heilsufar.

Allt þetta og meira til má lesa í nýju áhættumati vegna innflutnings dýra til Íslands, sem fyrrverandi yfirdýralæknir Danmerkur vann fyrir íslensk stjórnvöld og birtist í vikunni.

Strang­ari regl­ur voru settar um inn­flutn­ing dýra á sínum tíma hér­lend­is en víða ann­ars staðar. Það var ekki að ástæðulausu. Það er vissulega staðreynd að búfjárstofnar hér eru viðkvæm­ari fyr­ir ýms­um pest­um sem ekki eru vanda­mál ann­ars staðar, vegna einangrunar landsins. Þess vegna er mikilvægt að allar varnir séu í lagi.

Við innflutning á hundum og köttum sérstaklega eru sett ströng skilyrði. Dýrið er rannsakað og bólusett áður en það kemur til landsins. Þegar það er komið þarf það að vera fjórar vikur í einangrun. Ef það stenst skoðun að þeim vikum liðnum er einangruninni aflétt og dýrið fær að vera frjálst ferða sinna á Íslandi. Einangrunin reynist sumum dýrum mjög þungbær, án eigenda sinna, auk þess sem dýraeigendur þurfa að reiða fram háar fjárhæðir til þess að standa straum af kostnaði við veruna í sóttkvínni.

En nú er árið 2019. Varla þarf að fjölyrða um þær gríðarlegu framfarir sem orðið hafa undanfarin ár í læknavísindum, meðal annars hvað bólusetningar og sníkjudýralyf varðar. Þar fyrir utan er óvíða í heiminum hugað betur að eftirliti, skráningu og heilbrigði gæludýra en einmitt á Íslandi.

Af þessum sökum er óskiljanlegt að slík ill meðferð á dýrum, líkt og fjögurra vikna einangrunarvist sannarlega er, skuli viðgangast á 21. öldinni.

Nú er lag. Hver rannsóknin á fætur annarri sýnir að gæludýr bæta, kæta og hressa. Ísland er eftirbátur annarra landa hvað þetta varðar. Óbreytt fyrirkomulag er barn síns tíma; óþarft og til þess eins fallið að valda erfiðleikum og sársauka fyrir dýr og menn.

Hundaræktarfélag Íslands fagnar 50 ára afmæli um þessar mundir. Afmælisgjöfin ætti auðvitað að vera þeirra ósköp eðlilega krafa um að taka upp gæludýravegabréf líkt og gert er í löndunum í kringum okkur. Þetta er borðleggjandi dæmi.

Auglýsing
Auglýsing Loka (X)