GUNNAR

Auglýsing
Auglýsing
Frá degi til dags

Hárnetavikan

Sem stendur er kjördæmavika í gangi hjá Alþingi og þingmenn staddir þvers og kruss um landið til að kynna sér hin ýmsu störf og ná jarðtengingu við almenning. Samfélagsmiðlar hafa gert það að verkum að notendur þeirra, sem eru velflestir, geta fylgst með hverju fótmáli hinna þjóðkjörnu fulltrúa þar sem þeir anda að sér sveitalofti í stað svifryks. Flestar eiga þessar myndir það sameiginlegt að fólkið á myndinni er nær alltaf í fiskvinnsluslopp og með hárnet á höfði. Réttast væri því af Alþingi að leggja niður kjördæmavikur og taka upp hárnetavikur í staðinn.

Einn dagur á ári

Sumum finnst þó vera of mikið af hárneti og þingmönnum á tímalínunni hjá sér og hafa einhverjir agnúast yfir því að Reykjavíkurkjördæmin tvö og Kraginn fái enga slíka daga. Slíkur málflutningur er auðvitað stöngin út enda hafa kjósendur í þeim kjördæmum aðgang að þingmönnum sínum alla daga ársins á götum úti, kaffihúsum og kænum. Margir staðir á landsbyggðinni búa við að hafa þennan eina dag til að koma sínum málum á framfæri augliti til auglitis. Réttara væri að fjölga þessum dögum og klípa þá mögulega aðeins af sumarfríi þingsins.

joli@frettabladid.is

Auglýsing
Auglýsing
Bakþankar

Múrinn um matarkörfuna

Það er sjarmi að búa í svo fámennu samfélagi að við spjöllum við kunningja þegar við kaupum í matinn og nikkum til granna við kassann. Návígið hefur gert að ég raða í körfuna eftir ákveðinni aðferðafræði. Matarkörfunni fylgir nefnilega alltaf einhver feimni, því matarkarfa segir ákveðna sögu. Ég fel dömubindin í körfunni. Reyndar líka Bingókúlurnar (undir salatpoka) þrátt fyrir að það teljist kannski ekki fréttnæmt að fertugar konur kaupi dömubindi og að það sé lógískt skynsömu fólki að konur kaupa dömubindi einmitt á sama tíma og þær kaupa súkkulaði. Ég reyni að líta aldrei ofan í körfur annarra, ekki frekar en ég myndi lesa dagbók þó hún stæði opin.

Matarkarfan segir ekki bara sögu okkar. Hún segir sögu um samfélagið. Rjómi og beikon rokselst. Allir með sómakennd fela brauð og ávexti í körfunni. Og svo segir ein matarkarfa í hverfisverslun á Íslandi sögu um pólitík. Íslenska matarkarfan kostar 40-67% meira en sama matarkarfa í höfuðborgum Norðurlandanna. Verðmunurinn felst að stórum hluta í innlendum landbúnaðarvörum. Ástæðan er pólitík, múrinn sem stjórnvöld hafa reist kringum matarkörfuna. Vernd landbúnaðar er hvergi meiri innan OECD og greinin er að hluta undanþegin samkeppnislögum. Hæstiréttur Bandaríkjanna rammaði inn mikilvægi samkeppnislaga með því að segja samkeppnislög hafa sömu þýðingu fyrir frjálsan markað og stjórnarskrána fyrir vernd mannréttinda. Múrinn um matarkörfuna hefur áhrif á lífskjör okkar, karfan okkar er dýrari og fábreyttari. Í því ljósi er merkilegt hvað stjórnvöld gera lítið til að vernda frelsi okkar þegar við kaupum í matinn. Það eru nefnilega mannréttindi í matarkörfunni.

Auglýsing
Auglýsing