HALLDÓR

Auglýsing
Auglýsing
Frá degi til dags

Svartar skrautfjaðrir

Fréttir af dólgslegri karlrembuframkomu stjórnenda hjá Orkuveitu Reykjavíkur benda eindregið til þess að fleira sé myglað í höfuðstöðvum fyrirtækisins en útveggirnir. Í það minnsta hefur forstjórinn, Bjarni Bjarnason, kosið að stíga til hliðar á meðan vinnustaðamenning OR verður tekin út. Í ljósi þessa fölnar viðurkenningin sem Jafnréttisráð hengdi á OR fyrir fjórum árum meðal annars fyrir breytingar sem miðuðu að því að „nýta starfskrafta beggja kynja jafnt“ og gefa öllu starfsfólki jafna möguleika. Þegar Bjarni tók við viðurkenningunni sagði hann að ekki væri nóg að virða jafnréttið, „það þarf að fremja það“.

Léttur hnífur

Fámennt var á stofnfundi nýs stjórnmálaflokks, Víkingaflokksins, á Kaffivagninum í gær. Kannski tók bara enginn fundarboðið alvarlega þar sem böndin bárust fljótt að ofvirka samsæriskenningasmiðnum Axel Pétri Axelssyni sem sér falska fána í hverju horni og trúir engu sem hann sér eða heyrir. En þar sem þrír Framsóknarmenn, eða víkingar, koma saman, þar er fundur og flokkurinn hefur því verið stofnaður með hugsjónir víkinga, sem vildu lifa „frjálsir undan oki valdstjórna“. Léttur hnífur? Þessi hnífur á að vera léttvægur!

Auglýsing
Auglýsing
Bakþankar

Mál að linni

Nú sér loks fyrir endann á einu sorglegasta dómsmáli Íslandssögunnar, en málið var endurflutt í Hæstarétti í síðustu viku, 38 árum eftir að það var flutt þar fyrst. Áratugalangri bið og baráttu sakborninga fyrir endurupptöku málsins og mannorðshreinsun er að ljúka.

Mikilvægan lærdóm má draga af Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Það kennir okkur mikilvægi reglunnar um að sakborningar séu saklausir uns sekt þeirra er sönnuð og að ekki megi víkja frá leikreglum sakamálaréttarfars um fulla sönnun sektar að lögum. Ljóst er að strangar sönnunarkröfur munu í einhverjum tilvikum leiða til þess að sekir menn verða sýknaðir og ganga lausir en það er betri kostur en að saklausir menn verði dæmdir í fangelsi. Slík valdbeiting er ófyrirgefanleg og jafnvel óafturkræf, eins og sakborningar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu þekkja af eigin raun.

Það er nauðsynlegt fyrir alla að fá endalok í þetta mál. Í endalokunum felst að sakborningarnir verða sýknaðir. Það kom því nokkuð á óvart að heyra kröfu eins verjanda í málinu þar sem hann gerði kröfu um að Hæstiréttur ætti ekki aðeins að sýkna skjólstæðing sinn, heldur jafnframt lýsa sérstaklega yfir sakleysi hans. Ekki veit ég hvers vegna slík krafa er sett fram, því hún gefur því undir fótinn að málinu sé ekki lokið ef ekki verður fallist á kröfu verjandans. Enn eigi eftir að staðfesta sakleysið. Þetta stenst auðvitað ekki.

Fyrir liggur að sá sem er sýknaður telst saklaus samkvæmt reglunni um sakleysi uns sekt er sönnuð. Einsýnt er að Hæstiréttur mun ekki fallast á kröfu verjandans en sýknudómurinn felur engu að síður í sér að nú er málinu lokið.

Auglýsing
Auglýsing