HALLDÓR

Auglýsing
Auglýsing
Frá degi til dags

Leiðtoga vantar

Fyrir skemmstu auglýsti Stjórnarráðið laust til umsóknar embætti „leiðtoga innri þjónustu“. Um næstu mánaðamót tekur til starfa ný þjónustueining Stjórnarráðsins sem hefur það markmið að auka notkun upplýsingatækni til að stuðla að „nútímalegri og hagkvæmri starfsemi“. Það er umhugsunarefni hvort fólk í æðstu stöðum hafi verið annars hugar eða jafnvel sofandi þegar blessun var lögð á starfsheitið „leiðtogi innri þjónustu“ enda minnir það helst á gríntitil af Já.is. Leiða má að því líkur að við kaffivél einhvers almannatengslafyrirtækis hlæi starfsmenn sig máttlausa yfir því að hafa náð að selja þennan titil.

Félag farþega

Borgarstjórn kemur saman í dag í fyrsta sinn eftir kosningarnar í vor. Fulltrúi Sósíalista, Sanna Magdalena Mörtudóttir, byrjar með látum og leggur fram fjórtán tillögur fyrir fundinn. Ein þeirra er afar áhugaverð en það er stofnun félags fyrir farþega strætisvagna. Borgarfulltrúinn á skilið bjartsýnisverðlaun fyrir þá tillögu enda þekkja allir sem nota strætó þá óskrifuðu reglu að maður sest ekki við hlið annars farþega fyrr en sá kostur er manni nauðugur. Félag fyrir þann hóp verður áhugaverð tilraun.

Auglýsing
Auglýsing
Bakþankar

Sykurspeni fótboltans

Árangur íslenska karlalandsliðsins fær hárin til að rísa og fangar auglýsingin „Saman með Coca-Cola“ ágætlega tilfinninguna. Undir takti víkingaklappsins víðfræga sjáum við sveitasamfélag í stórbrotnu landslagi, landsmenn kljást við harkalegt veðurfar, hreystimenni taka á því og börn hylla strákana okkar. Og Coca-Cola er aldrei langt undan.

Þá rísa hárin hjá mér aftur – en ekki af góðu. Að tengja heimsins hraustustu íþróttamenn við gosdrykk sem veikir okkur er furðulegt. Coca-Cola hefur auglýst á HM síðan 1950 og hefur tryggt sér samning við FIFA til ársins 2030.

Pepsi lætur sitt ekki eftir liggja og merkir sína gosdrykki með frægustu fótboltastjörnum heims. Messi fær 230 milljónir og Gylfi væntanlega góða summu.

Allt hefur þetta sinn tilgang. Coca-Cola og Pepsi fá fleiri viðskiptavini, KSÍ og fótboltahetjurnar væna upphæð í vasann og við almúginn sykursýki, hjartaáföll, þvagsýrugigt, tannskemmdir og stærri björgunarhring um mittið! Fyrir hvern 230 ml sykurdrykk sem barn sýpur á dag aukast líkurnar á að það verði of feitt um 60% og ef þú drekkur hálfan lítra af gosi á dag er hætta á að þú þyngist um 11 kíló á ári.

Það væri óskandi að KSÍ klippti á strenginn við gosdrykkjafyrirtækin og hætti að hvetja ungmenni þessa lands til að leggjast á sykurspena. Víkingastrákarnir eru til fyrirmyndar – gosdrykkir eru það ekki.

Auglýsing
Auglýsing