HALLDÓR

Auglýsing
Auglýsing
Frá degi til dags

Það er 2018!

Upphrópunin „það er 2018“ er að verða ansi þreytt klisja en samt er eitthvað bogið og úrelt við að þjóðsöngurinn sé eina ferðina enn orðinn að þrætuepli og að hugmyndir pírataþingmannsins Helga Hrafns Gunnarssonar um að leggja til breytingu á lögum um sönginn þyki stappa nærri landráðum. Var þessi taugaveiklun ekki endanlega afgreidd með uppþotinu í kringum kvikmynd Hrafns Gunnlaugssonar, Okkar á milli, 1982 þar sem „Ó guð vors lands“ ómaði í því sem þá þótti annarleg útgáfa?

Tilfinningahiti og listrænn þungi

Thor Vilhjálmsson rithöfundur afgreiddi þann æsing í Morgunblaðinu fyrir nánast rennisléttum 36 árum 15. ágúst 1982 þegar hann sagði gráa „embættismenn koma upp úr skúffunum og segja að ekki megi nota þjóðsönginn, eins og hann gerir“. Thor benti á að reyndar væri „þetta ekki löggiltur þjóðsöngur“ og ekki „fyrir mig og þig að syngja, þótt ættjarðarástin æsist í okkur“. Hann sá ekki „annað en þetta þjóni listrænum tilgangi Hrafns“ og benti á að í „1812 forleiknum“ eftir Tsjajkovskí sé „franski þjóðsöngurinn keyrður í kaf af rússnesku lagi“ og það án þess að „Frakkar geri út hersveitir úr sendiráðunum til að stöðva það“.

Auglýsing
Auglýsing
Bakþankar

Lífið gæti verið hljóðritað

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur lagt fram til umsagnar frumvarp til laga um myndavélaeftirlit í sjávarútvegi til að fylgjast með hvort verið sé að brjóta lög. Gert er ráð fyrir að myndavélar fylgist með starfsfólki og vinnu þess um borð í fiskiskipum, höfnum, flutningatækjum, fiskvinnslum auk þess sem Fiskistofa mun reka flota af fjarstýrðum loftförum.

Verði frumvarpið að lögum er brotið blað í sögu eftirlitsiðnaðarins á Íslandi þar sem þessar tillögur eru af áður óþekktum skala. Samtök atvinnulífsins sögðu í umsögn sinni að enginn vafi væri á að næðu þessi áform fram að ganga myndu þau verða fyrirmynd annarra eftirlitsstjórnvalda og innan fárra ára gætu Íslendingar búið við eftirlitsþjóðfélag af áður óþekktri gerð.

Af hverju ætti þetta bara að gilda um sjávarútveginn? Mætti ekki t.d. líka sjá fyrir sér að Vinnueftirlitið væri með myndavélar á vinnustöðum til að tryggja að lögum væri fylgt þar? Til dæmis að allir væru örugglega að lyfta þungum hlutum með hnjánum, en ekki bakinu. Samkeppniseftirlitið gæti verið með myndavélar til að fylgjast með fólki sem tekur ákvarðanir um verð á vöru og þjónustu til að koma í veg fyrir samráð. Fjármálaeftirlitið gæti dekkað Borgartúnið með loftförum. Er einhver eðlismunur á þessu?

Eða kannski er bara einfaldast að ríkið fylgist með okkur öllum frá vöggu til grafar. Það mætti jafnvel slá tvær flugur í einu höggi og bæta kjör ljósmæðra með því að fela þeim aukin verkefni. Þær gætu einfaldlega tilkynnt öllum við fæðingu: „Vinsamlega athugið að lífið gæti verið hljóðritað.“

Auglýsing
Auglýsing