HALLDÓR

Auglýsing
Auglýsing
Frá degi til dags

Þverpólitísk áreitni

Þingheimur naut á föstudagskvöld eðalvína frá Suður-Evrópu í árlegri þingveislu. Guðmundur Sævar Sævarsson, varaþingmaður Flokks fólksins, fór heldur geyst í veigarnar og eins og Fréttablaðið.is greindi frá fyrst miðla í gær varpaði framferði hans skugga á gleðina. Hann gerðist ágengur og fjölþreifinn við konur í veislunni, að sögn þvert á flokkalínur þótt konur í Sjálfstæðisflokknum hafi einna helst þurft að verjast. Að sama skapi vekur athygli að þverpólitískt samkomulag virðist vera um að segja sem minnst um málið þar sem fjölmiðlum hefur veist flókið að fá þingfólk til þess að tjá sig um það.

Pólitískur dans

Gleðin hélt þó velli enda virðist þingfólki almennt tamt að skemmta sér saman. Þannig vöktu þau sérstaka athygli fyrir fágaða framkomu þau Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra. Þegar dansgólfið var opnað stigu þau fyrst allra saman fram og tóku snúning. Ákaflega fallegt augnablik þar sem pólitískir og oft harðir andstæðingar svifu í takt um gólfið. Það er greinilega pólitískur möguleiki að skemmta sér saman utan veggja vígvallarins við Austurvöll.thorarinn@frettabladid.is

Auglýsing
Auglýsing
Bakþankar

Fábjánaháttur

Ég er kaldastríðsbarn. Í því stríði glumdu á okkur fréttir dag hvern um mögulegar hörmungar af mannavöldum, þá greindu Pétur og Jón Múli manni frá því hvað stórveldin, USSR og USA, ættu mikið af kjarnorkusprengjum. Þær upplýsingar voru settar fram með þessu sniði:

Sovétríkin eiga gereyðingarvopn sem myndu nægja til þess að eyða heiminum 19 sinnum en Bandaríkin eiga sambærileg vopn sem eytt gætu heimsbyggðinni 26 sinnum.

Nú var ég ekki gáfaðra barn en gengur og gerist, en samt ... mér fundust þetta nokkuð undarleg vísindi. Ég stóð alltaf í þeirri meiningu, og stend reyndar enn, að það sé bara hægt að eyða heiminum einu sinni. Því fannst mér það glær heimska að semja um það í útlöndum að minnka vopnabirgðir heimsins þannig ekki væri hægt að eyða heiminum nema 13 sinnum.

Þessi fábjánaháttur er enn með sama sniði. Nú eiga allir efnavopn sem bannað er að nota. „Bandamenn“ okkar (sem sumir væru best geymdir í böndum eða óðsmannsskyrtum) gera nú árásir til þess að eyða ólöglegum efnavopnum sem þeir vissu að væru til og hvar væru geymd. Og þeir hóta að eyða þeim aftur ef vondu karlarnir hætta ekki að nota efnavopnin sem var þó eytt aðfaranótt síðasta laugardags [ég er ekkert að ruglast – þetta er svona!].

Ríkisstjórn Íslands sem veit ekki að Ísland er í NATO tekur það sérstaklega fram að hún hafi ekki lýst yfir stuðningi við þessar árásir – þegar eytt var eitrinu sem svo á að eyða aftur. En NATO sem hefur einhverja óljósa hugmynd um að Ísland sé í NATO tekur sérstaklega fram að allar bandalagsþjóðir standi á bak við eitureyðinguna.

Ég vona að börn í dag séu ekki minna gáfuð en ég var forðum. Þá er smá von. Við eigum nóg af fábjánum.

Auglýsing
Auglýsing