Um 25 þúsund manns deyja úr hungri á hverjum einasta degi í heiminum, eða að meðaltali ellefu manneskjur á hverri mínútu. Samkvæmt vefsíðunni Worldometer höfðu um miðjan dag í gær átján þúsund manns látist vegna hungurs þann daginn.

Tveir þriðju hlutar þeirra sem láta lífið vegna hungurs búa á svæðum þar sem stríðsátök eiga sér stað.

Hátt í 860 milljónir manna búa við vannæringu í heiminum og 1,7 milljarðar manna eru í yfirvigt. Tæplega 800 milljónir jarðarbúa eru með offitu.

Það sem af er þessu ári hafa yfir 723 þúsund manns látist af völdum sjúkdóma sem bárust með óhreinu drykkjarvatni. Rúmlega 787 milljónir jarðarbúa hafa ekki aðgang að hreinu vatni.