Árlegum þriggja daga leiðtogafundi aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins lýkur í dag. „Við hittumst í miðju alvarlegustu öryggiskreppu sem við höfum staðið frammi fyrir síðan í seinni heimsstyrjöld,“ sagði framkvæmdastjóri bandalagsins fyrir fundinn.

Atlantshafsbandalagið lítur á Rússland sem „helstu og beinustu ógnina“ við öryggi aðildarþjóðanna og við frið í Evrópu og á Atlantshafi. Þetta kom fram í yfirlýsingu sem leiðtogar bandalagsins gáfu frá sér í gær eftir árlegan fund sinn, sem var að þessu sinni haldinn í Madríd.

Innrás Rússa í Úkraínu varpaði skugga yfir fundinn og þau málefni sem þar voru rædd. Í nýrri grundvallarstefnu sem var tekin á fundinum, er áætlað að verulega verði fjölgað í viðbragðs- og varnarsveitum NATO í Austur-Evrópu, úr um 40.000 manns upp í 300.000. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, kallaði þetta stærstu umskipti í varnarstefnu bandalagsins frá lokum kalda stríðsins.

Rússar stálu sviðsljósinu af Kínverjum, sem höfðu verið í stærra hlutverki í yfirlýsingum og grundvallarstefnum síðustu ára. Stoltenberg lagði áherslu á að NATO liti ekki á Kína sem andstæðing. „En auðvitað verðum við að taka tillit til áhrifa á öryggi okkar þegar við sjáum Kína fjárfesta af svo miklum krafti í nýrri nútímahernaðaruppbyggingu, langdrægum eldflaugum eða kjarnavopnum og líka reyna að stjórna nauðsynlegum innviðum, til dæmis 5G.“

Joe Biden Bandaríkjaforseti tilkynnti á fundinum að Bandaríkin hygðust auka við herafla sinn í Evrópu. Meðal annars myndi flotinn koma fyrir fleiri tundurspillum við Spán og herinn myndi staðsetja fleiri hermenn annars staðar. Þá myndi fimmta hersveit Bandaríkjahers koma sér upp varanlegum höfuðstöðvum í Póllandi, nýrri hersveit yrði komið fyrir í Rúmeníu og tvær nýjar orrustuflugvélar yrðu sendar til Bretlands.

„Við erum að sanna það að Atlantshafsbandalagið er nauðsynlegra nú en nokkru sinni fyrr og eins mikilvægt og það hefur alltaf verið,“ sagði Biden.

Tyrkir semja við Finna og Svía

Meðal annarra málefna sem rætt var um voru aðildarumsóknir Svía og Finna í bandalagið. Norðurlandaþjóðirnar tvær ákváðu að sækja um aðild að NATO eftir innrásina í Úkraínu en mættu fyrst um sinn andstöðu Tyrkja, sem sökuðu ríkin um að vera vinveitt kúrdískum þjóðernishreyfingum sem eru skilgreindar sem hryðjuverkasamtök í Tyrklandi. Í fyrradag lögðu Tyrkir hins vegar blessun sína yfir að Svíar og Finnar hljóti inngöngu í bandalagið eftir að ríkin tvö féllust á tiltekna skilmála, meðal annars um að aflétta vopnasölubanni á Tyrkland og að taka til greina framsalsbeiðnir Tyrkja á grunuðum hryðjuverkamönnum.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, sem sótti fundinn ásamt Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra, sagði að stuðningur Íslendinga við inngöngu Finna og Svía í NATO væri „skilyrðislaus“.

Í yfirlýsingu leiðtoganna var jafnframt vikið að loftslagsbreytingum og þær kallaðar „grundvallaráskorun samtímans með gríðarleg áhrif á öryggi bandamanna“. Stefnt var að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í hernaðaraðgerðum NATO og taka loftslagssjónarmið til greina við öll helstu verkefni bandalagsins.