Þrjú dauðsföll eru til rannsóknar hjá Lyfjastofnun. Um var að ræða einstaklinga sem nýlega fengu bóluefni Pfizer gegn kórónaveirunni. Tilkynnt var um grun um orsakatengsl milli bólusetningarinnar og dauðsfallanna í gær.

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, segir að þó svo að ólíklegt sé að bólusetningin hafi valdið andlátunum sé mikilvægt að skera úr um hvort svo sé. Þessi andlát eigi þó ekki að breyta framkvæmd bólusetningarinnar.

„Það verður að hafa í huga að í þessum tilfellum var um að ræða aldrað fólk með fjölþætta og alvarlega langvinna undirliggjandi sjúkdóma. Þetta verður hins vegar rannsakað af Lyfjastofnun og tilvikin send Evrópsku lyfjastofnuninni til rannsóknar. Þessi andlát eru í samræmi við það sem fram kom í klínískum rannsóknum,“ segir Rúna.

„Það er svo landlæknis eða sóttvarnalæknis að meta hvort þessi dauðsföll leiði til þess að áætlunum um bólusetningar hérlendis verði breytt. Verði Lyfjastofnun fengin til þess að leggja mat á það hvort ástæða sé til þess að endurskoða bólusetningar hér á landi er það mat stofnunarinnar að svo sé ekki,“ segir forstjórinn enn fremur. Um fjögur þúsund aldraðir einstaklingar hafa verið bólusettir síðustu daga.

Lyfjastofnun bárust sextán tilkynningar um aukaverkanir í gær, þar af fjórar alvarlegar. Allar voru frá elsta og veikasta hópnum en ekki hefur borið á aukaverkunum hjá þeim um það bil eitt þúsund heilbrigðisstarfsmönnum sem hafa verið bólusettir.

Fréttablaðið ræddi í gær við aðstandanda eins þeirra sem létust í kjölfar bólusetningarinnar. Kvaðst hann sterklega gruna að bólusetningin hefði valdið dauða einstaklingsins. Þótt hann hafi vissulega verið aldraður og með undirliggjandi sjúkdóma hefði ekkert bent til þess að hann væri að fara að andast einmitt núna. Boðaði aðstandandinn að óskað yrði rannsóknar Landlæknis.

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar.
Fréttablaðið/Rósa Jóhannsdóttir