Kvikmyndir

Eternals

Leikstjórn: Chloé Zhao

Leikarar: Gemma Chan, Richard Madden, Angelina Jolie, Salma Hayek og Kit Harington

Í Eternals ætlar Marvel ekki að kynna til sögunnar eina nýja ofurhetju, ekki tvær, ekki heldur þrjár, né fjórar, fimm eða sex. Heldur eru hvorki meira né minna en tíu nýjar ofurhetjur kynntar til leiks í nýjustu mynd ofurhetjuverksmiðjunnar.

Það eitt og sér er vísbending um helstu vandamálin sem plaga handritið. Myndin á fína spretti inn á milli og Marvel-aðdáendur munu ekki vilja missa af henni. Framvinda sögunnar hikstar hins vegar og inni á milli er alltof mikið af samræðum sem missa marks og persónusköpun sem gengur misjafnlega upp.

Í Eternals kynnir Óskarsverðlaunaleikstjóri Nomadland, Chloé Zhao, til sögunnar hin eilífu. Þau hafa setið á hliðarlínunni hingað til vegna þess að eini tilgangur þeirra er að berjast við ófreskjur, svokölluð afbrigði (e. Deviants).

Leikaralistinn er næstum endalaus: Richard Madden og Kit Harington endurnýja kynnin frá Game of Thrones, og svo mæta minna þekktir einstaklingar eins og Gemma Chan, Kumail Nanjiani, Lia McHugh og fleiri ásamt reynsluboltunum Sölmu Hayek og Angelinu Jolie. Svo langur var leikaralistinn að undirritaður bjóst allt eins við að goðsagnir eins og John Travolta og Nicholas Cage yrðu með á tjaldinu.

Fátt er þó út á leikarana að setja og Gemma Chan skilar óformlegu aðalhlutverki sínu, sem hin eilífa Sersi, með prýði. Madden og Jolie gera sitt besta sem Ikarus og Thena en Kumail Nanjiani stendur eflaust upp úr af hinum eilífu sem glaumgosinn Kingo og gerir sitt besta til þess að blása lífi í mynd sem er á köflum allt of þurr.

Maður hefur hins vegar ákveðna samúð með handritshöfundum. Hin nánast ódauðlegu Eilífu, eru bæði alltof mörg og alltof lík Súperman og öðrum hálfguðlegum hetjum DC-myndasagnanna. Marvel reynir að feta ótroðnar slóðir í myndinni og það ber að minnsta kosti að virða.

Niðurstaða: Handritið plagar Eternals þar sem reynt er að feta ótroðnar slóðir í söguheimi Marvel. Tíu nýir leikarar gera sitt besta, í mynd sem er furðu þurr en á góða spretti inni á milli.