Ítalska ríkisstjórnin hefur stöðvað sendingu á bóluefni Oxford-AstraZeneca til Ástralíu. Sendingin innihélt 250 þúsund skammta af bóluefninu sem framleiddir voru í verksmiðjum AztraZeneca á Ítalíu.

Evrópusambandið samþykkti nýlega reglugerð sem heimilar stöðvun á sendingum á bóluefni ef framleiðandi hefur ekki staðið við samningsbundnar skuldbindingar sínar. Ítalía er fyrsta land sambandsins til að nýta sér þessa reglugerð.

AstraZeneca tilkynntu í janúar að skammtar þeirra til Evrópusambandsins yrðu 60 prósent færri en áætlað var sökum framleiðsluörðugleika. Sambandið sagði afsakanir lyfjaframleiðandans óásættanlegar og að hann þyrfti að standa við skuldbindingar sínar ellegar yrði gripið til aðgerða.

Evrópusambandið hefur sætt vaxandi gagnrýni fyrir tafir á dreifingu á bóluefni innan sambandsríkjanna. Á Íslandi hafa 5.477 hafið bólusetningu með bóluefni AstraZeneca.