Íslenska sprotafyrirtækið Optitog var að skrifa undir samning við norskan dreifingaraðila sem ætlar að selja útgerðum í norðanverðu Atlantshafi nýja aðferð við botnfiskveiðar sem er langtum umhverfisvænni og orkuminni en hefðbundnar trollveiðar á sjávarbotni.

„Þetta er ný kynslóð af veiðarfærum með nánast enga botnsnertingu,“ útskýrir Halla Jónsdóttir, ein af stofnendum Optitog, en hér er um svokallaða ljósvörpu að ræða sem smalar saman sjávarlífverum á borð við rækju með geislum ljósa sem fest eru við veiðarfærin.

„Þetta hefur verið reynt við raunverulegar aðstæður,“ bætir Halla við, en útgerð fiskiskipsins Klakks hefur verið fyrirtæki hennar innan handar við rækjuveiðar í Ísafjarðardjúpi, fyrir norðan land og við Snæfellsnes. Þess utan hafa útgerðir á Grænlandi, í Færeyjum og Noregi tekið virkan þátt í rannsóknunum og látið vel af árangrinum, en vísbendingar eru um að hægt verði að veiða fleiri fisktegundir með ljósvörpunni.

Þessi veiðiaðferð þykir jafn nýstárleg og hún er umhverfisvæn. „Við fljúgum netinu með ljósgeislunum á um þriðjungi úr metra yfir sjávarbotninum,“ segir Halla, en fyrir vikið þyrlast setið á botninum síður upp og veldur þar skaða á lífríkinu.

„Þar með er ekki lengur verið að draga vörpuna eftir botninum,“ bendir Halla á, sem merkir minni eyðslu á orku og hagræðingu í rekstri útgerða.

Hún þakkar það þolinmóðu fjármagni og þolinmóðum samstarfsmönnum að eigendur og vísindamenn á vegum Optitog hafi náð að halda úti fimmtán ára þrotlausu þróunarstarfi á þessu sviði. Margir hafi lagt verkefninu liðsinni sem skipt hafi sköpum – og nefnir Halla þar til sögunnar Hafrannsóknastofnun, Háskólann í Reykjavík, Matvælasjóð, Sjávarklasann, Tæknisetur og Tækniþróunarsjóð sem styrkt hefur verkefnið veglega, svo og sjóði Evrópusambandsins.

„Einn dagur um borð í togara með áhöfn og sérfræðingum kostar sitt,“ segir Halla og þeir hafi verið nokkrir túrarnir, svo ekki sé meira sagt, en ánægjan af þessu skipti líka máli. „Það hefur verið einstaklega gaman að vinna með skipverjum á Klakki sem hafa haft mikinn áhuga á þessu verkefni okkar,“ segir hún og tínir fleira til sem hlýjar henni um hjartarætur.

„Við fengum á dögunum viðurkenningu úr Minningarsjóði Þorsteins Inga Sigfússonar, sem vakti sérstaka athygli á verkefninu og það vel út fyrir landsteinana,“ segir Halla, full bjartsýni á velgengni veiðarfæranna, en Þorsteinn Ingi, sem var forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, hafi einmitt hvatt starfsfólk Optitog manna mest til dáða í sínu lífi og megi heita guðfaðir fyrirtækisins.

Ljósvarpan dregin inn, en ljósin á henni eru slökkt þegar veiðarfærið kemur upp á yfirborðið. Mynd/Aðsend
Halla Jónsdóttir, einn af stofnendum Optitog, ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands við afhendingu virðurkenningarinnar úr Minningarsjóði Þorsteins Inga Sigfússonar. Mynd/Aðsend