Svanhildur útskrifaðist sem félagsráðgjafi 2015 og sem fjölskyldufræðingur árið 2018 og hefur nýtt námið í starfi frá því námið hófst því hver lota gagnaðist inn í vinnu hennar á meðan námið stóð yfir.

Þegar Svanhildur er spurð hver sé sérstaða hennar, svarar hún: ,,Sérstaða mín í starfi er meðferðarvinna með einstaklingum með greinda geðsjúkdóma. Fjölskyldufræðin er mjög gagnleg í þá vinnu þar sem hver einstaklingur í þjónustu á fjölskyldu og oft er unnið með parsambandið eða samskipti fjölskyldunnar í meðferðinni,“ segir hún.

Svanhildur segir að málefni fjölskyldunnar hafi alla tíða heillað sig. ,,Samskipti, fjölskylduarfurinn og hvernig hann birtist í daglegu lífi fólks, áhrif áfalla og birtingarmynd mismunandi fjölskyldukerfa, eru þau verkefni sem mér finnst einna skemmtilegast að vinna með fólki,“ greinir Svanhildur frá.

Er þetta starf ólíkt því sem þú hefur fengist við áður?

,,Fjölskyldumeðferðarnámið var mjög góð viðbót við félagsráðgjafamenntunina. Í náminu fékk ég önnur verkfæri til að vinna með og aðstoða fólk í sinni vegferð. Námið veitti mér færni til að beita meðferð og nálgast málefni fjölskyldunnar út frá mörgum sjónarhornum.

Fjölskyldumeðferð er kannski ekki svo ólík öðrum störfum sem ég hef unnið sem félagsráðgjafi en ég beiti mér sem meðferðaraðili á annan hátt en ég gerði áður.“

Þegar Svanhildur er spurð hvort starfið taki ekki stundum á þegar hún fáist við erfið málefni, svarar hún:

,,Ég held að það sé óhjákvæmilegt þegar unnið er með fólki á mismunandi stöðum í lífinu, að það taki á mann sem meðferðaraðila. Reynsla og sögur fólksins hafa oft áhrif á mann og sum mál sitja dýpra í manni en önnur. Það sem vegur þó meira er traustið og einlægnin sem hver og einn skjólstæðingur er tilbúinn að gefa af sér í meðferðinni og árangurinn í starfinu sést best á bættri líðan skjólstæðinganna. Starfið er eins ólíkt frá degi til dags og við erum mörg. Það eru stöðugt ný verkefni, nýjar hliðar á málunum og nýjar áskoranir sem þarf að takast á við.“

Er góður aðbúnaður fyrir starfsmenn og skjólstæðinga á þínum vinnustað?

,,Aðbúnaðurinn mætti vera mun betri og er vinnan við að bæta hann hafin. Engu að síður reynum við að gera gott úr því sem við höfum og leggjum áherslu á hlýlegt umhverfi og persónulega þjónustu. Starfsandinn hér er mjög góður og tel ég það skila sér til okkar skjólstæðinga.“

En á Svanhildur einhver áhugamál utan vinnunnar?

,,Samvera með fjölskyldunni er mitt helsta áhugamál. Samvera með fólkinu mínu, útivist, ferðalög og hreyfing er það sem bætir mína geðheilsu.“