Stoðtækjaframleiðandinn Össur hagnaðist um 14 milljónir Bandaríkjadala sem eru um 1,9 milljarðar íslenskra króna á öðrum ársfjórðungi. Hagnaðurinn var um 8 prósent af veltu. Hagnaðurinn á fyrri helmingi ársins nam 24 milljónum Bandaríkjadala eða 3,1 milljarði íslenskra króna. Salan nam 181 milljón Bandaríkjadala eða 23,6 milljörðum íslenskra króna.

Innri vöxtur var -1 prósent á stoðtækjum og -1 prósent á spelkum og stuðningsvörum á öðrum ársfjórðungi 2022. Á fyrri helmingi ársins 2022 var innri vöxtur 2 prósent á stoðtækjum, spelkum og stuðningsvörum.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 33 milljónum Bandaríkjadala eða 4,3 milljörðum íslenskra króna eða 18 prósent af veltu á öðrum ársfjórðungi 2022.

Sveinn Sólvason, forstjóri Össurar segir að ytri aðstæður hafi haft áhrif á sölu félagsins.

„Ytri aðstæður hafa haft áhrif á sölu og verðhækkanir ásamt öðrum áskorunum í aðfangakeðjunni hafa einnig haft áhrif á reksturinn. Við sjáum hins vegar áframhaldandi söluvöxt á mörkuðum í Evrópu og Asíu, fyrir utan Kína vegna COVID-19. Við erum mjög ánægð með móttökurnar sem hið nýja Power Knee hefur fengið og erum bjartsýn yfir framtíðarmöguleikum þessarar tækni. Markmið Össurar er áfram að hjálpa fleiri einstaklingum að fá framúrskarandi vörur og lausnir með nýsköpun að leiðarljósi,“ segir Sveinn.