Norskur greinandi telur að flugfélög þurfi á að halda nægu fjármagni, stærð og stærðarhagkvæmni til þess að geta keppt af alvöru á flugmarkaði. Skipulag WOW air hafi gert flugfélaginu erfitt fyrir í samkeppninni.

„Ef WOW air hverfur af markaði yrði það sennilega jákvætt fyrir afkomu annarra félaga sem eru að keppa á sömu flugleiðum,“ segir Hans Jørgen Elnæs, greinandi hjá WinAir, í samtali við norska viðskiptamiðilinn E24.

Elnæs bendir á að viðræður forsvarsmanna WOW air og Indigo Partners, sem bandaríska fjárfestingafélagið sleit í gær, hafi líklega verið krefjandi í ljósi þess að íslenska lággjaldaflugfélagið skuldi Isavia háar fjárhæðir í lendingargjöld, auk þess sem Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi WOW air, hafi einnig lánað flugfélaginu fé.

Ef WOW air tekst ekki að fá fjárfesta að félaginu þýðir það líklega, að sögn Elnæs, að félagið muni fara í gjaldþrot og hætta starfsemi.

Elnæs segir að Bill Franke, aðaleigandi Indigo Partners, hafi trúlega ekki viljað fjárfesta í WOW air nema flugfélagið hreinsaði fyrst upp stórar skuldir.

Frétt Fréttablaðsins: Icelandair Group hefur viðræður við WOW air

Eins og kunnugt er hófu fulltrúar Icelandair Group og WOW viðræður í dag um mögulega aðkomu fyrrnefnda flugfélagsins að rekstri hins síðarnefnda, eins og greint var frá í tilkynningu í gærkvöldi.

Skömmu áður hafði WOW air upplýst um að Indigo Partners hefði slitið viðræðum um kaup á stórum hlut í flugfélaginu. Þær viðræður höfðu staðið yfir frá 29. nóvembr í fyrra.

Í tilkynningu Icelandair Group í gærkvöldi kom fram að ef af aðkomu félagsins að WOW air yrði myndi sú aðkoma byggjast á þeim forsendum samkeppnisréttar að WOW air teldist vera fyrirtæki á fallanda fæti. Auk þess var áréttað að viðræðurnar, sem stefnt er að ljúka næstkomandi mánudag, færu fram í samráði við stjórnvöld.