Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir að nýsköpunarfyrirtæki hér á landi hafi komið fram með ýmsar lausnir í loftslagsmálum.

„Loftslagsmálin eru mjög stór samfélagsleg áskorun sem allur heimurinn tekst á við og það verður mikil áhersla lögð á þau á komandi árum. Hér á landi er að finna ýmsar lausnir sem taka á þessum vanda og má þar nefna lausnir á sviði orkuskipta, kolefnisbindingar og orkuþekkingar,“ segir Sigurður og bætir við að hér hafi ýmis þekking byggst upp sem getur komið að góðum notum á erlendri grundu.

„Ýmis verkefni hjá verkfræðistofunum sem snúa að grænum lausnum hafa verið nýtt erlendis. Það sama á við um fyrirtæki eins og Jarðboranir. Nýlegt dæmi er svo fyrirtækið Carb­fix sem er brautryðjandi á heimsvísu í því að breyta koldíoxíði í stein. Það er lausn sem er mjög áhugaverð og getur nýst bæði okkur og öðrum þjóðum í því að ná loftslagsmarkmiðum. Síðan má ekki gleyma því að fram undan eru þriðju orkuskiptin, en þau tengjast samgöngum. Við þekkjum öll rafbílavæðinguna en fram undan eru stærri breytingar sem snúa að skipum, flugvélum og stærri ökutækjum.“

Hann segir jafnframt að hjá Samtökum iðnaðarins sé nýbúið að stofna Samtök vetnis- og rafeldsneytisframleiðenda. „Þetta er hugsað sem sérstakur faghópur fyrirtækja á þessu sviði. Fyrir þá sem hyggja á framleiðslu á vetni eða öðru rafeldsneyti með það að markmiði að koma á orkuskiptum hér á landi, en einnig alþjóðlega.“

Aðspurður hvernig rekstrarumhverfi nýsköpunarfyrirtækja sem leggja áherslu á umhverfismál sé, segir Sigurður að á heildina litið sé það mjög gott. „Það þarf með einhverjum hætti að efla loftslagssjóð. Þannig að hann fjárfesti meira í nýsköpun og þróun, sem nýtist við það verkefni að draga úr losun.“