Olíuverð hækkaði um meira en tvö prósent í gær vegna væntanlegra refsiaðgerða Bandaríkjanna gegn Íran sem hefta útflutning á olíu frá Íran og draga þannig úr heimsframboði.

Frá því að ríkisstjórn Trumps tilkynnti um refsiaðgerðirnar í vor hefur áhættuálag lagst ofan á olíuverðið sem á að endurspegla mögulegan samdrátt olíuframboðs þegar útflutningur frá OPEC-ríki er heftur. Fyrirhugað er að refsiaðgerðirnar hefjist 4. nóvember og hefur áhættuálagið aukist eftir því sem nær dregur.

„Óttast er að refsi­aðgerðirnar verði svo árangursríkar að þær taki meiri olíu af markaðinum en OPEC-ríki og önnur olíuríki geta bætt upp,“ segir Andrew Lipow markaðsgreinandi í samtali við fréttastofu Reuters.

Yfirvöld í Washington skipuðu bandamönnum sínum að draga úr innflutningi á íranskri olíu og nokkur Asíulönd, meðal annars Suður-Kórea, Japan og Indland, virðast ætla að fylgja fyrirmælunum, að því er Reuters greinir frá.

Hópur OPEC-ríkja og annarra olíuríkja hefur lagst á eitt til að takmarka olíuframboð frá því í janúar 2017 en samhliða 40 prósenta verðhækkun síðan þá hefur þrýstingur frá öðrum löndum um framboðs­aukningu vaxið.

Afleiðuverð fyrir Brent-olíu hækkaði um 1,67 dali og stóð í rétt rúmum 79 dölum eftir hækkunina.