Roar Østby, yfir­maður í peninga­þvættis­deild norska bankans DNB til fimm ára, sagði fyrir­vara­laust upp störfum í haust. Undir­maður hans Hege Hagen tók í kjöl­farið við stöðunni. Þetta kemur fram í frétt Dagens Nærings­liv sem fjallar um við­skipti DNB við mögu­legt peninga­þvætti Sam­herja.

Í um­fjöllun Stundarinnar um Sam­herja­málið kom fram að DNB hafi lokað á við­skipti við fé­lag sem tengt er sam­herja síðast­liðinn maí vegna gruns um að fé­lagið stundaði peninga­þvætti. Þrátt fyrir það segist bankinn ekki hafa fengið veður af Sam­herja­málinu fyrr en í síðustu viku.

Upp­sögnin tengdist Sam­herja ekki

Upp­lýsinga­full­trúi DNB, Thomas Mid­teide, segir af og frá að Østby hafi sagt starfi sínu lausu vegna málsins. Hann hafi sjálfur óskað eftir því að að láta störfum eftir 19 ára starf innan bankans. „Það að Roar hafi hætt hefur ekkert með Sam­herja­málið eða fyrra eftir­lit að gera. [..] Hann er mjög góður gaur og við hefðum gjarnan vilja hafa hann lengur í vinnu.“

Þá er at­hygli vakin á því að staða Østby hafi ekki verið aug­lýst á sínum tíma og heldur ekki til­kynnt um nýjan yfir­mann peninga­þvættis­deildar bankans. „Við aug­lýsum venju­lega ekki svona hluti í fjöl­miðlum. Það eru yfir þúsund stjórn­endur í DNB. Fjár­mála­eftir­litinu og öðrum við­eig­andi yfir­völdum fengu að sjálf­sögðu til­kynningu um þetta,“ segir Mid­teide.