Auglýsingastofan Brandenburg hefur ráðið Arnar Halldórsson til starfa og mun hann taka stöðu aðstoðarhönnunarstjóra á Brandenburg. Arnar er nýfluttur til Íslands en hann hefur búið og starfað í Skandinavíu um árabil. Þetta kemur fram í tilkynnignu.

Arnar hefur starfað sem yfirhönnunar- og teymisstjóri (e. Chief Creatiivity Officer) á nokkrum af virtustu auglýsingastofum Skandinavíu á borð við NORD DDB, The Oslo Company og SMFB.

Unnið fyrir McDonald’s, IKEA og Diesel

Hann hefur unnið verkefni fyrir alþjóðleg stórfyrirtæki og má þar nefna McDonald’s, SEAT, Circle K, Diesel, Diadora, Mondelez, IKEA og Geox. Verkefni sem Arnar hefur leitt hafa unnið til ýmissa alþjóðlegra verðlauna, s.s. Cannes Lions, Cresta, Eurobest, The One Show, The New York Festivals, Clio og Epica.

Arnar útskrifaðist úr myndlist frá Listaháskóla Íslands og lauk M.Sc. prófi í sjónlist (e. Visual Arts Electronic Imaging) frá Duncan of Jordanstone College of Art and Design í Skotlandi.

Aukinn hraði hefur haft mikil áhrif

„Þessi aukni hraði í samfélaginu hefur haft mikil áhrif í faginu. Við þurfum að temja okkur meiri langtímahugsun þegar kemur að vörumerkjaþróun. Að gera sköpunarferlinu hátt undir höfði er í raun viðskiptaákvörðun sem eykur verðmæti vörumerkja og skapar þeim jákvæða ímynd þegar fram í sækir. Á Brandenburg fær hugmyndavinnan mikið pláss og það samræmist vel mínum hugmyndum,“ segir Arnar.