Hagnaður Arion banka af áframhaldandi starfsemi nam ríflega 5,2 milljörðum króna á fjórða fjórðungi síðasta árs og meira en tvöfaldaðist frá sama tímabili árið áður þegar hann var rúmir 2,1 milljarðar króna. Þetta kemur fram í uppgjöri bankans sem birt var í gærkvöldi.

Arðsemi eigin fjár Arion banka af áframhaldandi starfsemi var jafnframt 10,8 prósent á fjórða ársfjórðungi síðasta árs samanborið við 4,3 prósent á fjórða fjórðungi ársins 2018.

Í afkomutilkynningu Arion banka er tekið fram að sala á hluta íbúðalánasafns bankans á fjórðungnum hafi haft jákvæð áhrif á afkomuna sem nemur um 1,1 milljarði króna.

Heildarhagnaður Arion banka var þó töluvert lægri vegna áhrifa frá félögum sem eru flokkuð sem aflögð starfsemi og eign til sölu. Þannig var afkoma bankans neikvæð um tæplega 2,8 milljarða króna á síðustu þremur mánuðum ársins 2019 en á sama tímabili árið 2018 var afkoman til samanburðar jákvæð um 1,6 milljarða króna.

Arðsemi eigin fjár var neikvæð um 5,8 prósent á fjórða fjórðungi síðasta árs borið saman við 3,2 prósenta jákvæða arðsemi eigin fjár á sama tíma árið 2018.

Heildareignir Arion banka námu 1.802 milljörðum króna í lok síðasta árs samanborið við 1.164 milljarða króna í árslok 2018 en í tilkynningu bankans er tekið fram að það sé í samræmi við markmið hans um aukningu tekna á áhættuvegnar eignir fremur en útlánavöxt.

Lán til viðskiptavina lækkuðu um 59,9 milljarða króna á árinu eða um 7 prósent og er lækkunin að stórum hluta komin til vegna áðurnefndrar sölu á íbúðalánasafni að fjárhæð 48 milljarðar króna.

Þrátt fyrir þessa lækkun segist bankinn hafa stutt við viðskiptavini sína, bæði fólk og fyrirtæki, með nýjum útlánum upp á 24 milljarða króna á fjórða fjórðungi.

Í tilkynningu bankans er auk þess tekið fram að til samræmis við markmið hans um að almennt eigið fé þáttar 1 sé í kringum 17 prósent hafi bankinn greitt arð og keypt eigin bréf fyrir samtals 12,4 milljarða króna á síðasta ári.

Leggur stjórn til tíu milljarða króna arðgreiðslu á þessu ári en jafnframt er tekið fram í skýrslu stjórnar í ársreikningi bankans að stjórnin muni mögulega boða til aukahluthafafundar síðar á árinu þar sem tillaga um arðgreiðslu eða aðra ráðstöfun eigin fjár verði lögð fyrir.

Eiginfjárhlutfall bankans var 24,0 prósent í árslok 2019 en var 22,0 prósent í árslok 2018. Hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 nam 21,2 prósent í lok síðasta árs og er eins og það var í árslok 2018. Í útreikningum eiginfjárhlutfalla er tekið tillit til tillögu um tíu milljarða króna arðgreiðslu á þessu ári og áframhaldandi kaupum á eigin bréfum bankans, sem gert er ráð fyrir að nemi um 4,2 milljörðum króna fram að aðalfundi í mars.