Tilboð frá ríflega níutíu fjárfestum fyrir meira en 500 milljónir dala bárust í útboði Arion banka á skuldabréfum sem flokkast til viðbótareiginfjárþáttar 1 í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu sem bankinn sendi Kauphöllinni síðdegis í dag.

Bankinn gaf út svonefnd AT1-skuldabréf fyrir eitt hundrað milljónir dala, jafnvirði ríflega 12,6 milljarða króna, og var því talsverð umframeftirspurn í útboðinu sem alþjóðlegu bankarnir Barclays, Goldman Sachs og Morgan Stanley höfðu umsjón með.

Skuldabréfin, sem eru í Bandaríkjadölum, bera fasta 6,25 prósenta vexti en þau eru breytanleg í hlutabréf ef eiginfjárþáttur 1 fer niður fyrir 5,125 prósent. Bréfin munu frá lánshæfiseinkunnina BB frá matsfyrirtækinu S&P.

Umrædd skuldabréf teljast til viðbótareiginfjárþáttar 1, eins og áður sagði, en í tilkynningu Arion banka er tekið fram að útgáfa bréfanna styrki eiginfjárgrunn bankans og sé liður í ná fram hagkvæmari skipan eiginfjár.