Meira en helmingur þeirra hús­eigna sem skipti um eig­endur hér á landi í síðasta mánuði seldist á yfir­verði. „Það er fyrsta skipti sem það gerist,“ segir Hannes Stein­dórs­son, for­maður Fé­lags fast­eigna­sala, en hann metur það svo að stýri­vaxta­hækkanir Seðla­bankans á undan­förnum mánuðum hafi ekki slegið á þenslu á hús­næðis­markaði.

„Það er frekar að þær miklu verð­hækkanir sem verið hafa á fast­eigna­markaði haldi aftur af fólki, einkum ungu fólki sem hugar að sinni fyrstu íbúð,“ segir Hannes, en telur að vaxta­hækkanirnar hafi lítil sem engin á­hrif á þá sem fyrir eru á hús­næðis­markaði og eru að skipta um fast­eign.

Hann segir stöðuna á ís­lenskum fast­eigna­markaði aldrei í sögunni hafa verið jafn slæma, hvað fram­boð á fast­eignum varðar. Í síðasta mánuði hafi 221 eign í fjöl­býli verið til sölu á öllu höfuð­borgar­svæðinu, frá Mos­fells­bæ og út á Sel­tjarnar­nes, og enn færri sér­býli.

„Til að fast­eigna­markaður teljist í jafn­vægi þarf allt að fjögur þúsund eignir í sölu á höfuð­borgar­svæðinu og það sjá það allir að dæmið gengur ekki upp,“ segir Hannes Stein­dórs­son og minnir á að fast­eigna­verð hafi hækkað um tuttugu prósent í fyrra og gert sé ráð fyrir allt að tíu prósenta hækkun í ár.