Nýlega tókst að afstýra uppnámi á vinnumarkaði þegar fallið var frá atkvæðagreiðslu innan Samtaka atvinnulífsins um hvort rifta ætti Lífskjarasamningnum. Þrátt fyrir að stundarfriður ríki á vinnumarkaði um þessar mundir er fjöldi fyrirtækja í vissum geirum sem telja sig beran skarðan hlut frá borði. Sjá þau fram á mikla kostnaðaraukningu á næstu misserum vegna samsetningar síns vinnuafls. Þau fyrirtæki sem eru með mikið af starfsmönnum í hlutastarfi, sem vinna til að mynda bara á kvöldin og um helgar, sjá mörg hver fram á hækkun á launakostnaði um 8 til 9 prósent á næstu mánuðum.

„Samkvæmt mati Samtaka atvinnulífsins hækkar launakostnaður fyrirtækja um ríflega 4 prósent yfir allan markaðinn en hlutfallslega mest hjá þeim sem greiða laun samkvæmt töxtum og eru með opnunartíma fram yfir klukkan 17.00. Hjá okkur er þessi tala vel yfir 8 prósent, eða um 1.000 milljónir að óbreyttu,“ segir Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festar, sem rekur meðal annars dagvöruverslanir Krónunnar, bensínstöðvar N1 og raftækjaverslanirnar Elko.

Eggert segir að stór hluti starfsmanna Festar sé fólk í hlutastarfi, til að mynda skólafólk. Því sé stór hluti launagreiðslna fyrirtækisins vegna yfirvinnustunda. Samkvæmt Lífskjarasamningnum er 33 prósenta álag á hefðbundinn taxta eftir klukkan 16 á daginn og helgarálag er 45 prósent. Þetta álag leggst á dagvinnutaxta, óháð því hversu marga tíma starfsmaður hefur unnið fyrr sama dag og því hvort starfsmaður er í hlutastarfi eða fullu starfi.

„Það hefur aldrei verið vilji til þess að búa til einhvers konar skiptingu í kjarasamningum milli fullvinnandi fólks sem vinnur hefðbundinn vinnutíma og þeirra sem eru í hlutastarfi og eru yfirleitt í yngri kantinum. Eins og þetta er sett upp núna borgar sig hreinlega að vinna færri tíma og vinna á kvöldin og um helgar. Þetta þýðir það að við borgum vaktstjórum sem vinna frá 9 til 18 vel yfir umsömdum launum í kjarasamningum, því annars væru þeir einfaldlega að fá sömu laun og háskólaneminn sem vinnur eftirmiðdaga og um helgar. Í sumum löndum byrjar yfirvinna að tikka inn eftir að ákveðinn fjöldi tíma hefur verið unninn þann daginn, til dæmis sjö eða átta tímar. Hér er bara yfirvinna eftir klukkan 16, óháð ráðningarsambandi og hversu marga tíma starfsmaðurinn hefur unnið þann daginn. Að mínu viti ættu kjarasamningar fyrst og fremst að snúast um að hækka laun fullvinnandi fólks, þeirra sem vinna hefðbundna dagvinnu,“ segir Eggert.

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festar.
Fréttablaðið/Valli

Hann segir að flest fyrirtæki hafi ráðist í mikla hagræðingu á síðustu mánuðum til að mæta áhrifum faraldursins og að ekki sé mikið svigrúm eftir til slíks. „Það eru tvær leiðir til að ná fram hagræðingu í núverandi stöðu – með verðhækkunum eða uppsögnum. Við getum ekki hækkað laun meira en sem nemur hagvexti. En það er það sem er að gerast núna og á endanum mun það bara veikja efnahagslífið og þar með krónuna. Á endanum lækka laun allra í gegnum gengislækkun og verðbólgu.“

Birgir Örn Birgisson, framkvæmdastjóri Domino’s á Íslandi, segir að núgildandi kjarasamningar komi sérstaklega illa við veitingageirann. Hann segir að margfalt hærra hlutfall starfsmanna í geiranum sé í hlutastörfum samanborið við vinnumarkaðinn í heild. „Miðað við núgildandi kjarasamninga verður hlutfall launa af tekjum í skyndibitageiranum orðið það einna hæsta á landinu miðað við taxtahækkanir núverandi kjarasamninga, bæði þær sem þegar eru komnar fram og þær sem eru ennþá í pípunum.“

Það eru tvær leiðir til að ná fram hagræðingu í núverandi stöðu – með verðhækkunum eða uppsögnum

Birgir segir að meirihluti starfsmanna í veitingageiranum sé á skólaaldri og stór hluti starfsmanna með nokkurra mánaða starfsaldur: „Margir í okkar geira eru í vandræðum með að fylla dagvinnustörfin en það er slegist um kvöldvinnuna. Það segir manni að rangt sé gefið í þessum efnum. Launaumhverfi Domino’s á Íslandi er að verða hið óhagfelldasta miðað við öll samanburðarlönd, sama hvort talað er um Norðurlönd, Bretland eða Bandaríkin,“ segir hann.

„Við erum með mikið af fastráðnu starfsfólki sem gengur vaktir og eru laun þess samsett sem grunnlaun með mismunandi vaktaálagi eftir því hve mikið af vinnunni er unnið utan hefðbundins dagvinnutíma. Svo eru aðrir starfsmenn sem taka aukavaktir hjá okkur á kvöldin og um helgar og fá þá greitt með viðeigandi álagi,“ segir Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís: „Þetta felur í sér að ef starfsmaður vinnur 100 prósent starf einungis í dagvinnu er hann með lægri laun en sá sem vinnur á kvöldin og um helgar. Vaktafyrirkomulagið á þjónustustöðvum okkar er þó þannig upp byggt að fastir starfsmenn vinna mislangt fram á kvöld og aðra hvora helgi og ekki er mikið um hlutastarfsmenn.“