Félagið Play, sem hefur um langt skeið unnið að því að koma á fót flugfélagi hér á landi, hefur tryggt sér nýtt hlutafé frá beiðum hópi innlendra fjárfesta, meðal annars lífeyrissjóða, að fjárhæð meira en fimm milljarðar króna.

Í hópi þeirra fjárfesta sem munu leggja hinu verðandi flugfélagi til nýtt fjármagn eru Stoðir, eitt umsvifamesta fjárfestingafélag landsins, eigendur eignarhaldsfélagsins Langasjós, sem á heildverslunina Mata og fjárfestingafélagið Brimgarða, félagið Fiskisund, sem Einar Örn Ólafsson, fjárfestir og fyrrverandi forstjóri Skeljungs fer fyrir, lífeyrissjóðirnir Birta og Lífsverk ásamt verðbréfasjóðum í stýringu Akta.

Á undanförnum vikum hefur staðið yfir lokað hlutafjárútboð, sem verðbréfafyrirtækið Arctica Finance hefur haft umsjón með, en því lauk síðastliðinn föstudag þar sem fjárfestar skráðu sig fyrir samanlagt meira en 40 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði um 5,5 milljarða króna, samkvæmt heimildum Markaðarins. Hinir nýju fjárfestar að Play munu eignast mikinn meirihluta í félaginu.

Þá er stefnt að skráningu félagsins á First North-markaðinn í Kauphöllinni, sem er áformað að verði í næstkomandi júnímánuði, en samhliða því hyggst Play sækja sér um 20 milljónir dala í aukið fjármagn til viðbótar því sem það hefur nú þegar tryggt sér, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Birgir Jónsson, sem var síðast forstjóri Íslandspósts en hefur einnig starfað sem forstjóri Iceland Express og aðstoðarforstjóri WOW air, mun í kjölfarið taka við sem forstjóri flugfélagsins. Í hópi þeirra einkafjárfesta sem koma núna að félaginu, meðal annars Stoða og Fiskisunds, hefur verið lögð á það áhersla að Birgir yrði fenginn í forstjórastólinn.

Play hefur nú þegar tryggt sér þrjár Airbus A321 leiguflugvélar til þess að hefja hefja áætlunarflug á vinsæla áfangastaði íslenskra ferðamanna.

Stjórn Birtu samþykkti á fundi sínum síðastliðinn föstudag fjárfestingu í Play en sjóðurinn, sem er fjórði stærsti lífeyrissjóður landsins með um 500 milljarða króna í hreina eign, mun leggja félaginu til nærri einn milljarð króna. Lífsverk, lífeyrissjóður verkfræðinga, hefur einnig ákveðið að koma að með fjármagn inn í rekstur Play en fjárfesting sjóðsins er hins vegar umtalsvert minni en Birtu.

Birta er sömuleiðis hluthafi í Icelandair Group, með liðlega 1,3 prósenta hlut, en sjóðurinn ákvað hins vegar að taka ekki þátt í hlutafjárútboði flugfélagsins síðastliðið haust.

Birgir Jónsson verður nýr forstjóri Play en hann starfaði um skeið sem forstjóri flugfélaganna Iceland Express og aðstoðarforstjóri WOW air.
Mynd/Íslandspóstur

Virði félagsins Play áður en hlutafjárútboðinu lauk var talið vera í kringum einn milljarður króna, samkvæmt heimildum Markaðarins, en það byggir meðal annars á þeim fjármunum sem Elías Skúli Skúlason, einn eigenda Airport Associates og núverandi stjórnarformaður Play, og hópur fjárfesta hefur lagt félaginu til á undanförnum mánuðum og misserum.

Hlutafjáraukning Play hefur miðað að því að fá breiðan hóp öflugra fjárfesta inn í eigendahóp flugfélagsins sem hefði fjárhagslegan styrk til að styðja við félagið. Til viðbótar við Stoði, Langasjó og Fiskisund koma einnig ýmsir aðrir stórir einkafjárfestar að fjármögnun Play.

Eigið fé Stoða, sem er stór hluthafi í Símanum, Kviku, TM og Arion banka, var meira en 30 milljarðar króna um síðustu áramót. Stærstu hluthafar Stoða eru meðal annars TM, sjóðir í stýringu Stefnis og félög á vegum Jóns Sigurðssonar, stjórnarformanns Stoða, og Örvars Kjærnested, fjárfestis stjórnarformanns TM.

Eignarhaldsfélagið Langisjór, sem er eigu systkinanna Guðnýjar Eddu, Eggerts Árna, Halldórs Páls og Gunnars Þórs Gíslabarna, átti eignir upp á tæplega 17 milljarða króna í árslok 2019. Í lok febrúar greindi Markaðurinn frá því að Langisjór hefði keypt allt hlutafé leigufélagsins Ölmu fyrir um 11 milljarða króna en dótturfélag þess, Brimgarðar, er einnig langsamlega stærsti hluthafinn í Eik auk þess að vera stór hluthafi í Reitum og Reginn.

Auk Einars Arnar er eignarhaldsfélagið Fiskisund í eigu Kára Þórs Guðjónssonar og Höllu Sigrúnar Hjartardóttur en félagið var um tíma einn stærsti hluthafi fiskeldisfyrirtækisins Arnarlax en seldi allan hlut sinn í ársbyrjun 2019 með um 800 milljóna króna hagnaði.

Gengi hlutabréfa Icelandair hefur lækkað um 2 prósent í um 160 milljóna króna veltu í Kauphöllinni í dag en hlutabréfaverð félagsins hefur fallið um liðlega 7 prósent frá því á fimmtudaginn.

Fréttin var uppfærð kl. 13:40.