Yfir þrjátíu þúsund eru núna komin með Samkaupaappið sem sett var á markaðinn sl. vor. Nokkra athygli vakti í auglýsingunum á appinu þegar stórsöngvarinn Kristján Jóhannsson birtist á skjánum í fínu formi.

Þetta kemur fram í þætti Jóns G. á Hringbraut í kvöld en gestir hans eru þau Ingibjörg Ásta Halldórsdóttir, markaðsstjóri Samkaupa, og Birgir Jónsson, forstjóri Play.

Ingibjörg Ásta segir að jólaverslunin fari vel af stað eftir líflegan svartan föstudag en víða um heim hefst jólavertíðinni í kjölfar þessa dags. „Við erum auðvitað mest í matvælum en sala bóka og leikfanga í Nettó hefur verið mjög góð undanfarin ár.“

Samkaup reka 60 verslanir úti um allt land undir merkjunum Nettó, Iceland, Kjörbúðin, Krambúðin og Samkaup strax.

Þáttur Jóns er á dagskrá Hringbrautar kl. 19, 21 og 23 í kvöld og endursýndur á tveggja tíma fresti eftir það til morguns.