Fjártæknifyrirtækið YAY flutti á dögunum skrifstofur sínar í Grósku, hús hugmynda og nýsköpunar í Vatnsmýrinni. YAY er markaðstorg fyrir rafræn gjafabréf frá fjölda fyrirtækja í gegnum app sem nefnist YAY.
„Við erum afar ánægð að vera flutt í Grósku í Vatnsmýrinni sem hýsir kraftmikið samfélag sköpunar og frumkvöðulsstarfs,“ segir Ari Steinarsson framkvæmdastjóri YAY, og bætir við:
„Það er mikið í gangi hjá okkur og það skemmtilega núna er að það hefur aukist talsvert að fyrirtæki eru að gleðja starfsmenn sína með skemmtilegum sumargjöfum.“
YAY hefur meðal annars séð um Ferðagjöfina fyrir íslenska ríkið sem Íslendingar hafa nýtt sér vel á ferðalögum innanlands frá því síðastliðið sumar og gengið framar vonum.
Samkvæmt tilkynningu hefur fyrirtækið vaxið mjög á stuttum tíma og selur nú gjafabréf frá yfir 140 fyrirtækjum. Mastercard valdi nýverið YAY, fyrst íslenskra fyrirtækja, til að taka þátt í sérstöku verkefni sem heitir Mastercard Lighthouse.