WOW air mun hefja flugreksturinn með tvær flugvélar og byggja upp flotann hægt og rólega. Markmiðið er að hafa um 10 til 12 vélar í flotanum. Nýja félagið verður fjármagnað að fullu með eigin fé.

Þetta kom fram á nýloknum blaðamannafundi sem Ballarin, einnig þekkt sem Michele Roosevelt Edwards, stóð fyrir á Grillinu á Hótel Sögu.

Endanlegt samkomulag hefur náðst á milli USAerospace Associates, félags bandarísku athafnakonunnar Michele Ballarin og skiptastjóra þrotabús WOW air um kaup félagsins á þeim eignum þrotabúsins sem tilheyra WOW vörumerkinu. WOW air mun hefja lággjaldaflugrekstur til Bandaríkjanna og Evrópu og er fyrsta flugið áformað milli Washington Dulles og Keflavíkur í október.

„Við viljum byggja leiðakerfið upp hægt og rólega, fara upp í 10 eða 12 vélar og láta það duga,“ sagði Ballarin. Það væri arðbærasta stærð flugvélaflota.

Ballarin sagði að búið væri að tryggja 85 milljónir dala fjármögnun, jafnvirði 10,7 milljarða króna, fyrir flugreksturinn, ásamt flugvélum.

„Það þarf ekki svo mikið fjármagn til að endurvekja flugfélag. Hafið í huga að við erum ekki að byrja frá grunni,“ sagði Ballarin.

„Við erum fjárhagslega stöndug, þetta verður allt eigið fé og engar skuldir. Það eru engar skuldir í fyrirtækinu og við stefnum á að halda því þannig,“ sagði hún, spurð um fjármögnun félagsins..

Þá sagði Ballarin að búið væri að tryggja félaginu flugvélar. Hún býst við að flotanum verði bæði Boeing-vélar og Airbus-vélar.