Michele Ballarin, stjórnarformaður US Aerospace Associates LLC, greiddi alls 50 milljónir íslenskra króna fyrir þær eignir sem hún keypti úr þrotabúi flugfélagsins WOW air, sem fór í þrot í mars á þessu ári. Meðal þeirra eigna sem hún keypti eru fjólubláir einkennisbúningar, rekstrarvörur, varahlutir, bókunartæki og handbækur. Greint var fyrst frá þessu á visir.is.

Á blaðamannafundi sem Ballarin hélt í byrjun september á Hótel Sögu greindi hún sjálf frá því að búið væri að tryggja rekstri flugfélagsins 85 milljóna dala fjármögnun, jafnvirði 10,7 milljarða króna, ásamt flugvélum. „Það þarf ekki svo mikið fjármagn til að endurvekja flugfélag. Hafið í huga að við erum ekki að byrja frá grunni,“ sagði Ballarin.

Þar greindi hún einnig frá því að endanlegt samkomulag hefði náðst milli félags hennar USAerospace Associates og skiptastjóra þrotabús WOW air um kaup félagsins á þeim eignum þrotabúsins sem tilheyra WOW-vörumerkinu. Kaupverðið var trúnaðarmál.

Fyrsta flugið til Washington

WOW air mun hefja lággjaldaflugrekstur til Bandaríkjanna og Evrópu og er fyrsta flugið áformað milli Washington Dulles og Keflavíkur í október. Til að byrja með verða tvær flugvélar í flotanum en áætlanir félagsins gera ráð fyrir vaxandi umsvifum þegar líður á veturinn og að næsta sumar verði þær orðnar fjórar talsins.

USAeropsace er bandarískt eignarhaldsfélag sem sérhæfir sig í fluggeiranum. Ballarin er stærsti hluthafi félagsins og stjórnarformaður. Hún verður einnig stjórnarformaður WOW air LLC. Félagið verður staðsett í Washington Dulles með aðstöðu á Keflavíkurflugvelli og skrifstofu í Reykjavík.