Flugfélagið WOW air hefur tryggt sér fjármögnun upp á samtals 60 milljónir evra, jafnvirði um 7,7 milljarða íslenskra króna, en skuldabréfaútboði félagsins lauk rétt í þessu, eða klukkan tvö í dag.

Skúli Mogensen, forstjóri og eini hluthafi WOW air, hafði stefnt að því að sækja sér að lágmarki 50 milljónir evra í skuldabréfaútboðinu. 

Skuldabréfaútgáfan er til þriggja ára og eru vextir á bréfunum níu prósent ofan á þriggja mánaða millibankavexti í evrum.

Í tilkynningu frá WOW air kemur fram að félagið hafi þegar nú þegar selt skuldabréf fyrir 50 milljónir evra og 10 milljónir evra verða seldar fjárfestum í framhaldi af útboðinu. Þátttakendur í útboðinu eru sagðir bæði hafa verið erlendir og innlendir fjárfestar en bréfið verða skráð til viðskipta í Nasdaq kauphöllinni í Stokkhólmi. 

„Við þökkum fyrir þann mikla stuðning sem félagið hefur fengið í gegnum þetta ferli sem og öllum þeim sem tóku þátt í útboðinu. Niðurstaðan er okkur hjá WOW air mikil hvatning til að halda áfram okkar góða starfi og efla enn frekar alþjóðlegt flug og ferðaþjónustu hér á landi,“ segir Skúli Mogensen forstjóri og stofnandi WOW air.

Frétt Fréttablaðsins: Skúli nálgast endamarkið

Norska verðbréfafyrirtækið Pareto hefur haft yfirumsjón með skuldabréfaútboðinu, sem hófst formlega í lok síðasta mánaðar, en WOW air hefur einnig haft íslenska ráðgjafa á sínum snærum, meðal annars Arctica Finance og Fossa markaði. 

Í tilkynningu WOW air segir að félagið hafi ráðið Arion banka og Arctica Finance til að hefja undirbúning að skráningu hlutabréfa félagsins innan 12-18 mánaða, bæði hérlendis og erlendis.

Skuldabréfafjármögnun WOW air er hugsuð sem brúarfjármögnun fram að áformuðu hlutafjárútboði. Fjárfestar sem taka þátt í skuldabréfaútboðinu fá kauprétt að hlutafé á 20 til 25 prósenta afslætti, þegar félagið verður skráð á markað, sem nemur helmingi af höfuðstól bréfanna en kauprétturinn verður að fullu framseljanlegur og gildir til fimm ára.

Í viðtali við Financial Times, sem birtist í gær, sagðist Skúli stefna að því að sækja sér 200 til 300 milljónir dala, eða sem nemur 22 til 33 milljörðum króna, í hlutafjárútboði innan 18 mánaða þar sem hann myndi selja minna en helming hlutafjár í félaginu til að afla slíkra fjárhæða. 

Frétt Fréttablaðsins: Skúli vill sækja 33 milljarða með hlutafjárútboði

Í viðtalinu viðurkennir hann að WOW air hafi ekki náð að halda aftur af kostnaðarhækkunum. „Eldsneytisverð hefur klárlega unnið gegn okkur, við erum ekki varin fyrir því. Við erum að endurskoða þá stefnu. “

Rekstrarumhverfi WOW air hefur versnað til muna undanfarið en greinendur Pareto spá því að félagið skili tapi upp á 3,4 milljarða króna í ár. Samkvæmt áætlunum WOW air er gert ráð fyrir verulegum viðsnúningi á næstu mánuðum og misserum og að félagið skili þannig hagnaði upp á um tvo milljarða króna á næsta ári.